Sá Wall í kafbátnum á Eyrarsundi

Sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur verið saknað frá því á …
Sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur verið saknað frá því á fimmtudagskvöld. Hún sást síðast um borð í kafbátnum Nautilus ásamt eigandanum, Peter Madsen.

Hópur ungra Dana sá kafbátinn Nautilus á Eyrarsundi um klukkustund eftir að hann lagði úr höfn í Kaupmannahöfn. Í opi turns hans segist fólkið hafa séð blaðakonuna Kim Wall standa sem og eiganda bátsins, Peter Madsen. Þetta var um klukkan 20.15 að kvöldi fimmtudagsins en kafbáturinn lagði frá höfn um kl. 19.

„Þau stóðu hlið við hlið og horfðu á okkur. Þau veifuðu og virtust glöð,“ segir Johan Rasmussen, 23 ára, í samtali við BT.dk. Rasmussen var um borð í fiskibátnum þar sem fram fór afmælisveisla á fimmtudagskvöldið. Fiskibáturinn var við akkeri er kafbáturinn sigldi fram hjá. Í fréttinni  kemur fram að líklega séu ungmennin meðal þeirra síðustu sem sáu Wall.

Er Rasmussen las fréttir um hvarf Wall um helgina hafði hann samband við lögregluna og sagði frá því sem fyrir augu bar á Eyrarsundi. 

Biðla til almennings um upplýsingar

Sænska lögreglan hélt blaðamannafund í morgun þar sem hún fór yfir aðkomu sína að hvarfi Wall en danska lögreglan fer fyrir rannsókninni. Á fundinum kom fram að nú sé verið að vinna úr farsímagögnum til að reyna að kortleggja ferðir Wall, Madsen og kafbátsins á fimmtudagskvöld og aðfaranótt föstudags. Þá hefur lögreglan biðlað til almennings um upplýsingar. 

Tilkynnt var um hvarf Wall kl. 2.30 aðfaranótt föstudagsins. Þá hófst leit að kafbátnum. Hann sást svo ekki aftur fyrr en við Drogden-vita í Køge-flóa kl. 10.14 að morgni föstudags. Hann sökk skömmu síðar.

Madsen var handtekinn á föstudag og úrskurðaður í gæsluvarðhald á laugardag vegna gruns um manndráp af gáleysi. Hann neitar sök. Ekkert lík hefur fundist en leitað er bæði í lofti og á sjó. Sænska lögreglan segir að hafstraumar legið að ströndum Svíþjóðar frá því að Wall hvarf en danska lögreglan hefur ekki beðið þá sænsku um að taka þátt í leitinni.

Lögreglan útilokar ekki að Wall hafi verið komið um borð í annan bát og mögulega flutt til Svíþjóðar eða Þýskalands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert