Drápu 32 í stríðinu gegn fíkniefnum

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur áður réttlæt dráp án dóms …
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur áður réttlæt dráp án dóms og laga. AFP

Filippseyska lögreglan drap 32 síðasta sólarhring í aðgerðum sínum í stríðinu gegn fíkniefnum. Að sögn BBC er talið að þetta hafi verið einir blóðugustu 24 tímar í stríðinu gegn fíkniefnum.

Um var að ræða aðgerðir lögreglu í Bulacan-héraði, sem er norður af höfuðborginni Manila.

Segir lögregla alla hina látnu hafa verið meinta fíkniefnasala og þeir hafi verið vopnaðir og varist handtöku.

Þúsundir hafa látist frá því að Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, lýsti yfir umdeildu stríði gegn fíkniefnum í fyrra. Er herferð forsetans ætlað að þurrka með öllu út fíkniefnaviðskipti í landinu. Hún hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum og alþjóðasamfélaginu vegna fjölda dauðsfalla.

Duterte hefur áður réttlætt dráp án dóms og laga.

Samkvæmt gögnum fór lögreglan í 26 aðgerðir vegna fíkniefnamála í 12 borgum. Auk þeirra 32 sem voru drepnir voru 100 manns handteknir og hald lagt á ólögleg vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert