Fundu afsagaða kvenmannsfætur í ruslinu

Ítalskir lögreglumenn að störfum í Róm.
Ítalskir lögreglumenn að störfum í Róm. AFP

Tveir afsagaðir kvenmannsfætur fundust í ruslapoka í íbúðarhverfi í norðurhluta Rómaborgar að því er ítalskir fjölmiðlar greindu frá í dag.

Ung kona fann fæturna er hún var að fara í gegnum ruslatunnur í nágrenni lystigarðs í borginni í gærkvöldi.

AFP-fréttastofan segir fæturna hafa verið sagaða af við nára, en aðrir líkamshlutar hafi enn ekki fundist.

Tæknideild ítölsku lögreglunnar fer nú gegnum myndbönd úr eftirlitsmyndavélum í hverfinu í von um vísbendingar.

Þetta er ekki fyrsti fótafundurinn í borginni, en árið 2015 fannst fótleggur í ánni Tíber með húðflúri sem á stóð: „Í dag er góður dagur til að deyja“.

Fundurinn vakti mikinn óhug meðal borgarbúa, en sá fótleggur tilheyrði gallhörðum stuðningsmanni fótboltaliðsins Lazio, sem var þekktur eiturlyfjanotandi og átti sakaferil að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert