Lægsta atvinnuleysi í Bretlandi í 42 ár

Frá London. Mynd úr safni.
Frá London. Mynd úr safni. AFP

Áfram dregur úr atvinnuleysi í Bretlandi þrátt fyrir yfirstandandi úrsagnarviðræður landsins úr Evrópusambandinu. Atvinnuleysi hefur ekki mælst minna síðan 1975.

Í frétt AFP um málið kemur fram að 1,48 milljónir manna hafi verið á atvinnuleysisskrá í lok júní á þessu ári og hefur atvinnulausum því fækkað um 157 þúsund manns á milli ára.

Yfirtölfræðingur vinnumarkaðar hjá bresku Hagstofunni segir vinnumarkaðinn standa vel. „Atvinnuþátttaka nær nýjum hæðum og áfram dregur úr atvinnuleysi,“ segir Matt Hughes.

AFP ræddi einnig við David Morel hjá ráðningarstofunni Tiger Recruitment sem segir mikla óvissu krauma undir niðri þrátt fyrir fyrirsagnir um áframhaldandi vöxt og stöðugleika. „Fólk velur að halda í störfin sín frekar en að leita að nýju starfi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert