Risaskjaldbaka fannst við dýragarðinn

Risaskjaldbakan er um meter á lengd og vegur um 55 …
Risaskjaldbakan er um meter á lengd og vegur um 55 kíló. AFP

Risaskjaldbaka sem braust út úr japönskum dýragarði er fundin heil á húfi um tveimur vikum eftir að hún hvarf en hún fannst í aðeins 140 metra fjarlægð frá garðinum.

Skjaldbakan sem er 35 ára og ber nafnið Abuh nýtur mikilla vinsælda meðal gesta dýragarðsins Shibukawa í Okayama í Japan og bauð dýragarðurinn rúmlega 500 þúsund króna fundarlaun þeim sem hefði uppi á skjaldbökunni og kæmi henni heilli á húfi aftur í garðinn.

Hún er um meter á lengd og 55 kíló og straujaði hún út úr dýragarðinum í ágústbyrjun en yfir opnunartíma dýragarðsins gengur hún um laus meðal gestanna. „Okkur er svo létt að hún sé fundin. Hún nýtur mikilla vinsælda hjá börnunum,“ sagði Yoshimi Yamane, starfsmaður garðsins, en gripið verður til ráðstafana til að atvikið endurtaki sig ekki.

Málið vakti mikla athygli í Japan og var heimkoma skjaldbökunnar meðal helstu frétta ríkissjónvarps Japans, NHK, í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert