Bannon: Hvítir þjóðernissinnar eru trúðar

Steve Bannon hefur verið einn helsti ráðgjafi forsetans. Hann hefur …
Steve Bannon hefur verið einn helsti ráðgjafi forsetans. Hann hefur undanfarið reynt að skapa fjarlægð milli sín og hægri öfgamanna. AFP

Steven Bannon, einn helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, gagnrýndi hvíta þjóðernissinna og kallaði þá trúða í óvæntu samtali sem hann átti við blaðamann stjórnmálavefsins American Prospect.

Bannon stýrði hægriöfgafréttaveitunni Breitbart áður en hann hóf að starfa fyrir Trump og er af mörgum talinn einn helsti áhrifavaldur á þjóðernisstefnu forsetans, auk þess að hafa með því fylgi sem hann nýtur hjá hægriöfgasinnum átt sinn þátt í að Trump sigraði í forsetakosningunum.

Í samtali sínu við American Prospect, sem Bannon hringdi óvænt í, sagði hann „kynþátta-þjóðernissinna vera aumingja“. Trump hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarna daga fyrir að fordæma ekki mótmæli hægriöfgamanna í Charlottesville um síðustu helgi sem kostuðu a.m.k. þrjá lífið. Trump hefur líka verið hvattur til að reka Bannon, vegna þeirra áhrifa sem hann er sagður hafa á forsetann og tengsla hans við hægriöfgamenn.

Trump hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um það hvort hann beri enn traust til Bannons og hafði Reuters raunar eftir heimildamanni í Hvíta húsinu í gær að Trump væri hræddur við að reka Bannon.

„Þessir gæjar eru samansafn trúða“

Í viðtalinu við bandaríska tímaritið var Bannon spurður hvort tengsl væri milli þeirrar efnahagslegu þjóðernisstefnu sem hann aðhyllist og þeirra hvítu þjóðernissinna sem mótmælt hafa í Charlottesville.

„Kynþátta-þjóðernissinnar (e. ethno-nationalism) – þetta eru aumingjar,“ sagði Bannon. „Þetta er jaðarhópur. Ég held að fjölmiðlar geri of mikið úr þessu. Við verðum að aðstoða við að brjóta þetta á bak aftur – þú veist eyða þessu enn frekar,“ bætti hann við. „Þessir gæjar eru samansafn trúða.“

Bannon hefur áður reynt að skapa fjarlægð milli sín og kynþátta-þjóðernissinna með því að segja áhuga sinn á þjóðernisstefnu eiga rætur í neikvæðum afleiðingum hnattvæðingar.

Í viðtalinu tjáði Bannon sig einnig um málefni Norður-Kóreu, en Trump hefur hótað norðurkóreskum stjórnvöldum eldi og brennisteini láti þau verða af hernaðaraðgerðum sínum. Bannon sagði hins vegar enga hernaðarlega lausn á kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.

„Allt þar til einhver leysir þann hluta reikningsdæmisins sem sýnir mér að 10 milljónir íbúa í Seúl muni ekki deyja á fyrsta hálftímanum vegna notkunar hefðbundinna vopna veit ég ekki hvað þú ert að tala um. Það er engin hernaðarlausn hér,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert