Koma frá Bandaríkjunum og vilja hæli

AFP

Kanadískir embættismenn vöruðu í dag fólk við því að koma fótgangandi til Kanada frá Bandaríkjunum án þess að fara í gegnum hefðbundið landamæraeftirlit í viðleitni sinni til þess að stemma stigum við vaxandi straumi bandarískra flóttamanna.

Fram kemur í frétt AFP að embættismennirnir hafi lagt áherslu á þó fólk stigi fæti á kanadískt land væri það ekki sjálfkrafa ávísun á að það fengi hæli í Kanada. Haft er eftir samgönguráðherra landsins, Marc Garneau, að þeir sem ætluðu að sækja um hæli yrðu að gera sér fyllilega grein fyrir þeim reglum sem giltu í þessum efnum.

Þannig væri ekki hægt að fá hæli í Kanada nema viðkomandi væri að flýja hryðjuverk eða stríð í heimalandi sínu. Mikilvægt væri að bregðast við röngum upplýsingum sem hefði verið dreift þar sem annað kæmi fram. Bæði væri hættulegt og ólöglegt að fara yfir landamæri Bandaríkjanna að Kanada án þess að fara í gegnum landamæraeftirlit.

Ennfremur segir að í júlí hafi tæplega þrjú þúsund manns komið frá Bandaríkjunum til Quebec í Kanada og óskað eftir hæli miðað við sögulegt meðaltal á mánuði upp á 400-500 manns. Í ágúst væri fjöldinn þegar orðinn meiri eða 3.800 manns. Margir þeirra eru erlendir ríkisborgarar í Bandaríkjunum sem óttast að verða vísað úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert