Malala fékk inngöngu í Oxford

Malala hlakkar til að hefja nám í Oxford.
Malala hlakkar til að hefja nám í Oxford. AFP

Malala Yousafzai, handhafi friðarverðlauna Nóbels og baráttukona fyrir réttindum stúlkna til menntunar, hefur fengið skólavist í Oxford-háskóla. Hún tilkynnti þetta á Twitter-síðunni sinni fyrir skömmu. „Ég hlakka svo til að fara í Oxford,“ skrifaði hún og birti mynd af skilaboðunum sem hún fékk frá skólanum, þar sem skólavist hennar er staðfest. AFP fréttastofan greinir frá.

Hin tvítuga Malala mun því hefja nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði núna í haust, en þessi námsleið hefur verið mjög vinsæl við skólann, sem og í fleiri skólum. Óskaði hún jafnframt öðrum nemendum sem fengu inngöngu í skólann til hamingju.

Malala komst fyrst í heimsfréttirnar þegar hún var 15 ára gömul, en þá var hún skotin í höfðið af byssumanni úr röðum talíbana, þar sem ferðaðist með rútu heim úr skólanum, í heimalandi sínu, Pakistan. En hún hafði þá barist fyrir réttindum stúlkna til náms.

Malala var í kjölfarið flutt til Birmingham í Englandi þar sem hún fékk viðeigandi læknishjálp og hefur hún búið þar með fjölskyldunni sinni síðan. Hún hélt áfram að mennta sig hefur verið öðrum stúlkum fyrirmynd og hvatning.

Árið 2014, þegar hún var 17 ára gömul, fékk hún friðarverðlaun Nóbels, ásamt Kailash Satyarthi, fyrir að hafa barist ötullega fyrir réttindum barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert