Nærri drepinn vegna kynhneigðar sinnar

Johnson hlaut afar alvarlega áverka eftir árásina og fannst af …
Johnson hlaut afar alvarlega áverka eftir árásina og fannst af bráðaliðum nærri dauða en lífi á götum Rochdale, þar sem hann hafði verið skilinn eftir. Ljósmynd/Wikipedia

Carl Johnsson fannst nærri dauða en lífi eftir að hópur fólks réðst á hann á götum borgarinnar Rochdale í Bretlandi um helgina. Grunað er um að um hatursglæp sé að ræða. Johnson hlaut alvarlega áverka, þar á meðal heilablæðingu, og dvelur nú á sjúkrahúsi.

Réðust á hann af engu tilefni

Eins og Independent greinir frá var Johnson að fagna því að hann væri nýfluttur í borgina kvöldið sem ráðist var á hann. Að sögn fjölskyldu hans þekkti hann engan og vildi endilega eignast nýja vini og ákvað því að fara á bar til að kynnast nýju fólki.

Laugardagsnóttina hélt hann svo heim á leið en þá réðust þrír karlmenn og ein kona á hann af engu tilefni. Grunur er um að um hatursglæp hafi verið að ræða, en að sögn bróður Johnson, Mark, er kynhneigð Carl augljós vegna „hegðunar hans“.

Johnson hlaut afar alvarlega áverka eftir árásina og fannst af bráðaliðum nærri dauða en lífi á götum Rochdale, þar sem hann hafði verið skilinn eftir.

Hlaut heilablæðingu og höfuðkúpubrot

Johnson var færður á sjúkrahús þar sem kom í ljós að hann hafði höfuðkúpubrotnað og hlotið heilablæðingu. Auk þess var hann með brotinn kjálka, brotinn þumal og skaddaðist á rifbeinum. Að sögn fjölskyldu hans sögðu læknar Johnson að hann hefði verið heppinn að vera á lífi.

Johnson dvelur nú sjúkrahúsinu þar sem hann er á mörkum meðvitundar og meðvitundarleysis. Hann gæti þurft að dvelja á spítalanum í sex mánuði. Ekki er vitað hverjir árásamennirnir voru og lögreglan hefur enn ekki fundið nein vitni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert