Rússar banna Votta Jehóva

Fólk á gangi í Moskvu. Starfsemi Votta Jehóva hefur nú …
Fólk á gangi í Moskvu. Starfsemi Votta Jehóva hefur nú verið bönnuð í landinu. AFP

Rússneska dómsmálaráðuneytið tilkynnti í dag að Vottar Jehóva væru komnir á svartan lista og trúfélagið hér eftir bannað í landinu vegna „öfga aðgerða“ sinna.

Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að ákveðið hefði verið að banna trúfélagið með lögum og að þeim lögum verði fylgt eftir, en trúfélagið er með 395 safnaðadeildir í Rússlandi.

Evangelíska kirkjan var einnig á lista ráðuneytisins yfir samtök sem hafa verið bönnuð.

Forsvarsmenn Votta Jehóva hafa átt í langri lagadeilu vegna bannsins og hafnaði hæstiréttur landsins í júlí áfrýjunarbeiðni trúfélagsins, en hæstiréttur hafði í apríl staðfest bannið og úrskurðað að eigur trúfélagsins yrðu gerðar upptækar.

Áður hafði dómsmálaráðuneytið farið fram á að trúfélagið yrði bannað þar sem vísbendingar um „öfga aðgerðir“ hefðu fundist.

Vottar Jehóva telja nútíma kristnar kirkjur hafa vikið frá kenningum biblíunnar, þá hafna þeir þróunarkenningunni og neita að þiggja blóðgjafir.

Rúmlega 8 milljónir manna um heim allan eru í trúfélaginu, sem í sumum ríkjum flokkast til sértrúarsamtaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert