Stela dýragarðsdýrum til matar

Venesúelamenn hafa sumir hverjir flúið land til Kólumbíu þar sem …
Venesúelamenn hafa sumir hverjir flúið land til Kólumbíu þar sem þeir hafast við í flóttamannabúðum og fá mat. AFP

Soltnir og örvæntingarfullir íbúar Venesúela hafa neyðst til að stela dýrum úr dýragörðum til að seðja sárasta hungrið. Lögeglan rannsakar nú grunsemdir um að dýrum hafi meðal annars verið rænt úr dýragarði í Zulia í vesturhluta landsins.

Mikill matvælaskortur er í Venesúela og verð á matvælum hefur hækkað upp úr öllu valdi síðustu sex mánuði í kjölfar mikils pólitísks óstöðugleika. 

Í frétt Reuters er haft eftir lögreglunni að tveimur pekkarísvínum, sem eru áþekk villigöltum, hafi verið stolið um síðustu helgi úr dýragarðinum í borginni Maracaibo í Zulia-ríki. Borgin er rétt við landamærin að Kólumbíu. 

„Við höldum að þau hafi verið tekin með það í huga að borða þau,“ segir lögreglumaðurinn Luis Morales.

Í frétt Reuters segir að matarskorturinn í Venesúela hafi þegar orðið til þess að hluti þjóðarinnar hefur ekki nóg að borða og leitar matar í örvæntingu, m.a. í ruslagámum.

Nicolas Maduro forseti kennir stjórnarandstöðunni og mótmælum sem hann segir hana hafa staðið fyrir um. Hann segir að mótmælin hafi komið af stað „efnahagslegu stríði“ sem yfirvöld í Bandaríkjunum eigi þátt í.

Stela fágætum dýrum

Stjórnendur dýragarðanna segja að þjófnaður á dýrum hafi færst í aukana síðustu vikur. Dýr af að minnsta kosti tíu tegundum hafi verið tekin. Meðal annars hafi vísundi verið stolið, hann brytjaður niður og seldur. Telur stjórnandi dýragarðsins í Zulia að eiturlyfjasalar hafi staðið fyrir þjófnaðinum á dýrinu og séð hagnaðarvon í því að selja kjötið.

Sjaldgæfum dýrum hefur einnig verið stolið, m.a. tveimur tapírum, frumskógardýrum sem eru áþekk svínum. Tapírar eru skilgreindir sem „viðkvæm tegund“. 

Dýragarðsyfirvöld segja að þau glími líka við annað vandamál, þ.e. að útvega mat handa dýrunum. Í fyrra sultu um fimmtíu dýr í hel í dýragarðinum í höfuðborginni Caracas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert