12 ára fangi Ríkis íslams sameinast fjölskyldu

Emad Mishko Tamo með móður sinni við endurfundina.
Emad Mishko Tamo með móður sinni við endurfundina. Ljósmynd/Twitter

12 ára jasídadrengur sem var rænt af vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hefur nú sameinast móður sinni, þremur árum eftir að honum var rænt.

Það urðu fagnaðarfundir þegar fjölskylda Emads Mishkos Tamos tók á móti honum á flugvellinum í Kanada á miðvikudagskvöld. Móðir hans kom til Kanada sem flóttamaður með fjórum af sex börnum sínum fyrr á þessu ári. Fjölskyldan tvístraðist og móðir Emads missti samband við hann, föður hans og eldri bróður þegar Ríki íslams hertók Sinjar, þorpið sem þau bjuggu í 2014.

Vígamenn söfnuðu fólkinu saman og héldu í gíslingu í tvö ár að því er fréttavefur BBC greinir frá.

Það var síðan ættingi móður hans, Nofa Mihlo Rafo, sem lét hana vita að mynd hefði verið birt af Emad á netinu eftir að honum var bjargað. Hann var þá búsettur hjá frænda sínum í Írak og hafði verið frá því honum var bjargað. Eftir það var efnt til herferðar til að fá drenginn fluttan til fjölskyldunnar í Kanada.

„Ég er svo glaður og þakklátur öllum þeim sem áttu þátt í að sameina mig móður minni,“ hefur kanadíska CBC-sjónvarpsstöðin eftir Emad.

Myndbandsupptökur voru á Facebook af endurfundunum.

Jasídar eru minnihlutatrúarhópur í Norður Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert