Vara við árásargjörnum mávum

Mávarnir eru orðnir árásargjarnari en nokkru sinni.
Mávarnir eru orðnir árásargjarnari en nokkru sinni. AFP

Mikil aukning hefur orðið á fjölda þeirra sem leita á sjúkrahús í Bretlandi eftir mávaárásir, að sögn lækna þar í landi. Virðast mávar við strandlínu Bretlands vera orðnir árásargjarnari en nokkurn tímann. Þetta kemur fram á vef breska dagblaðsins Telegraph.

Lyfsalar í Cornwall segjast nú fá að minnsta kosti einn sjúkling í viku sem hefur orðið fyrir meiðslum eftir mávaárás eða hlotið skurði. Segjast þeir telja fjölmarga til viðbótar meðhöndla sár sín heima.

Í sumum tilvikum hafa ung börn hlotið skurði í andlit eftir að mávar hafa reynt að ræna mat beint úr munni þeirra. 

Að sögn lyfsalanna geta flestir þeir sem lenda í árásum af þessu tagi leitað í næsta apótek og fengið þar aðstoð. Þó hefur aukinn fjöldi þurft að leita á sjúkrahús vegna grófra árása.

Fyrr á þessu ári gerðu breskir þingmenn mávaógnina að umræðuefni, en þar kom fram að eldri borgarar hefðu verið meðal þeirra sem fuglarnir hefðu ráðist á. Vildu sumir þingmannanna vildu hreinlega láta útrýma fuglunum, sem þeir kölluðu plágu.

Í maí sl. var tilkynnt að íbúar og ferðamenn í Austur Devon myndu eiga von á sektum ef þeir gaukuðu mat að mávum. Var um að ræða átak yfirvalda til að draga úr árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert