Efast um ábyrgð Ríkis íslams

Rússneskur lögreglumaður.
Rússneskur lögreglumaður. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu því yfir í dag að þau bæru ábyrgð á árásinni í borginni Surgut í Rússlandi þar sem karlmaður réðist á sjö manns með hnífi áður en hann var skotinn til bana af lögreglunni. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Frétt mbl.is: Lýsa yfir ábyrgð á hnífaárásunum

Rannsóknarlögreglumenn hafa hins vegar sagt að árásin væri líklega ekki hryðjuverkaárás. Hins vegar hafa rússnesk stjórnvöld ekki enn brugðist við yfirlýsingu Ríkis íslams. Hryðjuverkasamtökin höfðu áður lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkaárásunum á Spáni fyrir helgi þar sem þrettán manns létust og yfir eitt hundrað særðust.

Sjö manns voru fluttir á sjúkrahús í Surgut en áður höfðu embættismenn sagt fórnarlömbin vera átta talsins. Haft er eftir varaformanni varnarmálanefndar efri deildar rússneska þingsins, Franz Klintsevich, að hann efist um að Ríki íslams tengist árásinni. Samtökin gætu allt eins verið að reyna að eigna sér árásina sér til framdráttar.

Borin hafa verið kennsl á árásarmanninn en hann bjó á svæðinu og var fæddur árið 1994. Fram kemur í fréttinni að verið sé að rannsaka hvort hann hafi átt við einhver andleg vandamál að stríða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert