Tíu látnir í indversku lestarslysi

mbl.is

Tíu létu lífið og tugir til viðbótar slösuðust þegar hraðlest fór af sporinu í norðurhluta Indlands í morgun. AFP fréttaveitan greinir frá málinu en þar kemur fram að fimm lestarvagnar hafi farið út af spori.

„Tíu eru látnir og tugir slasaðir. Flestir hinna slösuðu voru fluttir á sjúkrahús,“ sagði yfirsjúkraflutningamaður svæðisins, P. S. Mishra. „Við erum að flytja alla slasaða á sjúkrahús og erum að reyna að bjarga fólki sem er fast í vögnunum,“ sagði Jitender Kumbar varðstjóri hjá lögreglu.

Atvikið varð í Uttar Pradesh-ríki í Indlandi. Á myndum má sjá fólk búið að príla ofan á vagnana að reyna að bjarga þeim sem fastir eru í vögnunum. Tæplega 150 manns létu lífið í sambærilegu slysi á svipuðum slóðum fyrir minna en ári síðan. Í skýrslu indversku ríkisstjórnarinnar sem var gerð árið 2012 kom fram að um 15 þúsund manns láti lífið ár hvert vegna lestarslysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert