Andlegur leiðtogi hópsins látinn

Sorg ríkir í Barcelona.
Sorg ríkir í Barcelona. AFP

Imam, sem talinn er hafa verið leiðtogi tólf manna hópsins sem framdi hryðju­verk­in í Barcelona í síðustu viku, er látinn. Þetta hefur spænska lögreglan staðfest að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar.

Abdel­baki Es Satty lést þegar sprenging varð í byggingu í bænum Alcanar á miðvikudag, þar sem árásarmennirnir útbjuggu sprengjur. Greint hafði verið frá því að einn hafi látist í sprengingunni, en lögregla hefur nú staðfest að það var Satty. 

„Það er staðfest. Líkamsleifar imamsins voru þar,“ sagði talsmaður lögreglu í dag.

Í spænsk­um miðlum hefur verið haft eft­ir heim­ild­ar­mönn­um að Satty hafi verið and­leg­ur leiðtogi árás­ar­mann­anna. Er hann sagður hafa hvatt þá áfram og hjálpað þeim að skipu­leggja árás­ina. 

Frá heimili Abdelbaki Es Satty.
Frá heimili Abdelbaki Es Satty. AFP

Lög­regl­an í Katalón­íu réðst inn á heim­ili imamsins í bæn­um Ripoll aðfaranótt laugardags en þar safnaði lög­regla meðal ann­ars DNA-sýn­um úr Satty. 

Frétt mbl.is: Skot­inn til bana af lög­regl­unni

Eins og mbl.is greindi frá í dag skaut lögreglan í Katalóníu mann til bana í dag, en staðfest hefur verið að það var You­nes Abouya­aqoub, sem er grunaður um að hafa ekið sendi­ferðabílnum á gang­andi veg­far­end­ur á Römblunni. Þrett­án manns fór­ust og yfir 130 særðust í hryðju­verka­árás­inni.

Lög­regl­an tel­ur að hóp­ur­inn sem stóð fyr­ir hryðju­verk­un­um hafi talið tólf manns. Lög­regl­an tel­ur að hryðju­verka­menn­irn­ir hafi ætlað sér að fremja fleiri árás­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert