Byggingar hrynja í skjálfta á Ítalíu

Eyjan Ischia liggur úti fyrir strönd Napólí.
Eyjan Ischia liggur úti fyrir strönd Napólí. Google maps

Nokkrar byggingar hrundu í jarðskjálfta sem varð á ítölsku eyjunni Ischia, skammt undan strönd Napólí, nú í kvöld. Ein kona lést er brak úr kirkju hrundi yfir hana og sjö er enn saknað eftir skjálftann, sem mældist 3,6 stig.

Eru íbúar og ferðamenn sagðir hafa hlaupið út á götur í bænum Casamicciola, en mikill fjöldi sat á veitingastöðum í bænum og búðir voru enn opnar þegar að skjálftinn reið yfir. Ítalskir fjölmiðar hafa nú í kvöld sýnt myndir af sex byggingum og kirkju í bænum sem hrundu í skjálftanum.

Reuters segir um 25 manns hafa slasast í skjálftanum. Þá er búið að rýma sjúkrahús og hótel á eyjunni.

Jarðskjálftar eru algengir á Ischia. Mannskæðasti skjálftin sem riðið hefur yfir eyjuna var skjálfti upp á 5,8 sem varð rúmlega 2.000 manns að bana árið 1883.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert