Hættulegur og mögulega vopnaður

Fjórar myndir af Younes Abouyaaqoub sem lögreglan birti á Twitter …
Fjórar myndir af Younes Abouyaaqoub sem lögreglan birti á Twitter í dag. AFP

Yfirvöld í Katalóníu greindu frá því áðan að fimmtán væru látnir eftir árásina í Barcelona í síðustu viku. Hryðjuverkamannsins, sem ók inn í hóp fólks á Römblunni, er nú leitað um alla Evrópu. 

Spænska lögreglan greindi frá því í morgun að talið sé að Younes Abouyaaqoub, 22 ára gamall hælisleitandi frá Marokkó, hafi ekið inn í hóp ferðamanna á fimmtudag. Þrettán voru úrskurðaðir látnir þann sama dag. Tugir slösuðust. 

Joaquim Forn, sem fer með innanríkismál í Katalóníu, sagði í útvarpsviðtali í morgun að óskað hafi verið eftir því við yfirvöld í öðrum ríkjum Evrópu að lýsa eftir Abouyaaqoub. Lögreglan telur að Abouyaaqoub hafi stungið Spánverja til bana og stolið bifreið hans einni og hálfri klukkustund eftir hryðjuverkið. Bifreiðin fannst í smábænum Sant Just Desvern á fimmtudagskvöldið. Hann er fimmtánda fórnarlambið sem tilgreint var áðan. 

Spænska dagblaðið El País birti í dag myndir af manni sem það segir vera Abouyaaqoub hlaupa á brott frá árásarstaðnum í Barcelona. Á myndunum sést grannur maður með sólgleraugu ganga í gegnum La Boqueria-markaðinn skammt frá Römblunni. 

Leyniþjónustan hefur verið gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi eftir að í ljós kom að hún hafði ekki hugmynd um hryðjuverkahópinn sem var að undirbúa mun alvarlegri árás en ekkert varð af árásinni þar sem sprengiefnið gjöreyðilagðist í eldsvoða skömmu áður en árásin var gerð á Römblunni. Hryðjuverkamennirnir, tólf talsins, neyddust því til að breyta áætlunum sínum. 

Fimm þeirra voru skotnir til bana af lögreglunni í Cambrils og fjórir handteknir. Af þeim þremur sem eftir standa eru tveir mögulega látnir eftir eldsvoðann í húsnæðinu sem hýsti sprengiefnið í Alcanar á miðvikudagskvöldið. 

Tæknideild lögreglunnar er enn að stöfum og hefur fundið leifar úr 120 gaskútum sem sprungu í húsinu. Líkamsleifar tveggja einstaklinga hafa fundist en ekki hefur verið staðfest að um hryðjuverkamennina sé að ræða. Sprengiefnið er af sömu gerð og Ríki íslams notar oft í árásum sínum.

Lögreglan hefur birt fjórar myndir af Younes Abouyaaqoub og segir að hann sé hættulegur og jafnvel vopnaður. Biður lögregla almenning um að hafa samband ef fólk hefur einhverja vitneskju um hvar hann gæti verið að finna.

Að sögn héraðsstjórnar Katalóníu hafa fjölskyldur fórnarlambanna 15 verið látnar vita. Af þeim eru sex Spánverjar, þrír Ítalir, tveir Portúgalar, Belgi, Kanadabúi, Bandaríkjamaður og breskur Ástrali. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert