Kramdist í lyftu

Rocío Cortés Núñez lést þegar líkami hennar kramdist milli hæða …
Rocío Cortés Núñez lést þegar líkami hennar kramdist milli hæða þegar lyfta tók skyndilega af stað. Ljósmynd/Facebook

Heilbrigðisyfirvöld á Spáni rannsaka nú andlát konu sem kramdist í lyftu stuttu eftir að hún fæddi barn á spítala í Sevilla. Fjölskylda hennar er niðurbrotin yfir slysinu sem átti ekki að geta gerst.

Atvikið átti sér stað þegar Rocío Cortés Núñez, 25 ára, var nýkomin úr keisaraskurði. Verið var að flytja hana í lyftunni þegar hún stóð á sér og hurðarnar opnuðust og lokuðust nokkrum sinnum. Starfsmaður sjúkrahússins var við það ýta henni út úr lyftunni til þess að reyna aðra þegar hún byrjaði skyndilega að lyftast með hurðarnar opnar og hluti líkama hennar hékk út.

Fram kemur í frétt BBC að slökkviliðsmenn hafi verið kallaðir á staðinn en það var um seinan. Líkami hennar hafði kramist á milli hæðanna. Þá herma frásagnir að höfuð hennar hafi verið afskorið.

Með nýfædda dótturina hjá sér 

Engan annan sakaði í slysinu, en nýfædd dóttir hennar var hjá henni þegar það átti sér stað. Átti hún tvö börn fyrir. Fjölskylda hennar er niðurbrotin vegna atviksins og vill fá að vita hvers vegna stendur á því að öryggiskerfið hafi brugðist.

Heilbrigðisráðherra á svæðinu, Marina Alvarez, hefur nú hafið rannsókn á atvikinu en sagði við fjölmiðla að lyftan hafi staðist öryggisprófanir fyrr í mánuðinum. Sagði hún slysið hafa verið „hratt, óvenjulegt og sorglegt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert