Síðasti liðhlaupinn í Norður-Kóreu látinn

Ted og James Dresnok.
Ted og James Dresnok. AFP

Tveir synir bandarísks liðhlaupa hafa staðfest andlát hans í Norður-Kóreu en liðhlaupinn, James Joseph Dresnok, var einn af hópi bandarískra hermanna sem staðsettir voru í Suður-Kóreu en héldu yfir til Norður-Kóreu í kjölfar Kóreustríðsins sem geisaði á árunum 1950-1953. Dresnok hélt þangað árið 1962.

Fram kemur í frétt AFP að Dresnok hafi síðan komið fram í fjölmörgum áróðurskvikmyndum sem framleiddar voru í Norður-Kóreu. Talið er að hann hafi verið síðasti bandaríski liðhlaupinn í landinu. Aðrir eru taldir látnir eða var leyft að yfirgefa Norður-Kóreu.

Synir hans, Ted og James Dresnok, staðfestu í viðtali að faðir þeirra hefði látist í nóvember á síðasta ári í kjölfar hjartaáfalls 74 ára að aldri. Lofuðu þeir Norður-Kóreu og leiðtoga landsins, Kim Jong-un, en þeir eru báðir fæddir í landinu.

Talið er að móðir þeirra hafi heitið Doina Bumbea, rúmensk kona sem var rænt af Norður-Kóreumönnum. Stjórnvöld í landinu hafa í gegnum tíðina rænt konum frá Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu og neytt þær í hjónabönd með karlmönnum frá löndum utan Norður-Kóreu til að koma í veg fyrir að þeir gengju að eiga norðurkóreskar konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert