Trump-fjölskyldan dýr leyniþjónustunni

Forsetahjónin Donald og Melania Trump með Barron syni sínum. Hann …
Forsetahjónin Donald og Melania Trump með Barron syni sínum. Hann er yngsta barn Trump, sem á nokkur uppkomin börn úr fyrri hjónaböndum. AFP

Bandaríska leyniþjónustan mun fara fram úr fjárlögum vegna kostnaðar við yfirvinnugreiðslur sem til eru komnar vegna eftirlits  með Donald Trump Bandaríkjaforseta, stórri fjölskyldu hans og þeim fjölda heimila sem Trump-fjölskyldan á.

AFP-fréttastofan hefur eftir Randolph „Tex“ Ailes, yfirmanni leyniþjónustunnar, að stofnunin muni fara fram úr fjárlögum ársins vegna þeirrar miklu yfirvinnu sem starfsmenn þurfi að inna af hendi til að vernda forsetafjölskylduna.

Þá sé von á 150 erlendum þjóðarleiðtogum til New York í næsta mánuði vegna aðalfundar Sameinuðu þjóðanna og því muni kröfur á starfsmenn aukast enn frekar.

„Þetta er ekki mál sem hægt er að kenna núverandi stjórn alfarið um. Þetta mál hefur komið upp reglulega undanfarinn áratug vegna sífjölgandi verkefna,“ sagði í yfirlýsingu frá Ailes.

Frá því hann tók við forsetaembættinu hefur Trump farið næstum hverja helgi úr Hvíta húsinu og dvalið á heimilum sínum í Flórída, New Jersey eða Virginíu. Leyniþjónustan þarf þá einnig að veita uppkomnum börnum forsetans vernd er þau fara í frí eða ferðast í viðskiptalegum erindum.

„Forsetinn á stóra fjölskyldu og hlutverk okkar er skýrt í lögum,“ sagði Ailes.

Alls njóta 42 í núverandi Bandaríkjastjórn verndar leyniþjónustunnar, þar af 18 í Trump-fjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert