Aftöku frestað með 4 tíma fyrirvara

Marcellus Williams. Ríkisstjóri Missouri frestaði aftöku hans í dag vegna …
Marcellus Williams. Ríkisstjóri Missouri frestaði aftöku hans í dag vegna nýrra sönnunargagna. AFP

Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri, frestaði í dag aftöku manns sem taka átti af lífi fyrir að drepa konu er hann braust inn á heimili hennar. Aftakan átti að fara fram í dag, en lögfræðingur mannsins, Marcellus Williams, segir nýlega DNA-rannsókn sanna sakleysi Williams.

Greitens frestaði aftöku Williams fjórum klukkustundum áður en hún átti að fara fram í Bonne Terre-ríkisfangelsinu. Williams hafði verið dæmdur til dauða 2001 fyrir að drepa blaðamanninn Feliciu Gayle við innbrot á heimili hennar í St. Louis í ágúst 1998.

Í yfirlýsingu frá Greitens segir að hann muni setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að skoða þessi nýju sönnunargögn og nefndinni verði í kjölfarið falið að mæla með því hvort Williams verði tekinn af lífi.

Rúmlega 200.000 manns höfðu skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem Greitens var beðinn að fresta aftökunni og búið var að skipuleggja mótmælaaðgerðir í St. Louis síðar í dag.

„DNA-rannsókn sýnir að hann er saklaus,“ sagði Kent Gipson, lögfræðingur Williams, við Reuters-fréttastofuna. Williams var sakaður um að hafa stungið Gayle 43 sinnum er hún á að hafa komið óvænt að honum við að fremja innbrot á heimili sínu.

Gipson hefur beðið Hæstarétt Bandaríkjanna að hindra aftökuna, en hann segir nýlega DNA-rannsókn, þar sem nýjum rannsóknaraðferðum er beitt, hafa sýnt að erfðaefni á hnífnum hafi tilheyrt óþekktum karlmanni, ekki Williams. Hár sem fundust á líki Gayle útiloki einnig Williams að því er Gipson hefur eftir erfðafræðisérfræðingi sem hann hefur kallað til vitnis.

Hæstiréttur Missouri frestaði aftöku Williams árið 2015 til að heimila nýja DNA-rannsókn, en neitaði síðan að fresta aftökunni frekar eftir að sönnunargögnin lágu fyrir.

Josh Hawley, ríkissaksóknari Missouri, segist sannfærður um sekt Williams og sú sannfæring byggist á öðrum sönnunargögnum en DNA-rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert