Björn beit mann í öxlina

Björninn beit í öxlina á Chen.
Björninn beit í öxlina á Chen. Ljósmynd/Weibo

Björn beit mann í kínverskum safarígarði þar sem fólk getur keyrt í gegnum garð og skoðað dýr. Kona lét lífið á sama stað í fyrra þegar tígrisdýr réðust á hana.

Maðurinn hunsaði aðvörðunarskilti og skrúfaði niður rúðuna á bíl sínum til að geta gefið birni eitthvað ætilegt. Samkvæmt þarlendum miðlum slapp maðurinn, Chen, með minni háttar áverka.

Yfirvöld hafa skipað garðinum að herða á öryggisreglum og takmarka fjölda gesta sem koma þangað. 

Chen sagðist sjálfur hafa séð aðra gesti gefa björnum og því hafi hann og félagi hans einnig ákveðið að láta á það reyna. Björn kom að glugganum og maðurinn reyndi að skrúfa rúðuna upp en hún fór lengra niður í staðinn. Björninn náði að bíta í öxlina á Chen. 

Mennirnir brunuðu við það í burtu og leituðu aðstoðar læknis. „Ég viðurkenni að það var mér að kenna að opna gluggann,“ sagði Chen en viðbrögðin sem hann fékk frá starfsmönnum garðsins voru honum ekki að skapi.

„Þau sögðu mér bara að fara á sjúkrahús.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert