Grunur um misnotkun í þrjá áratugi

Málið snýst um brot gagnvart fjórum dætrum fjölskylduföðurins, auk konu …
Málið snýst um brot gagnvart fjórum dætrum fjölskylduföðurins, auk konu hans. Munu þrjár dætranna hafa verið undir tíu ára aldri þegar brotin hófust. Myndin er úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Faðir á sextugsaldri og tveir synir hans á þrítugsaldri í Helgeland í Nordland-fylki í Noregi sæta nú ákæru fyrir svo umfangsmikið kynferðisbrotamál, að sögn Eriks Thronæs, saksóknara við saksóknaraembættið í Nordland, að nauðsynlegt reyndist að stofna sérstakan rannsóknarhóp í málinu innan umdæmisins auk þess að leita aðstoðar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos.

Snýst málið um brot gagnvart fjórum dætrum fjölskylduföðurins auk konu hans sem talið er að staðið hafi yfir frá því fyrir 1990 og fram á árið í ár. Í ofanálag hafa báðir synirnir stöðu brotaþola í málinu gagnvart föður sínum. Enginn hinna ákærðu er þó grunaður um brot gagnvart öllum fjórum systrunum, faðirinn er grunaður um að hafa brotið gegn einni þeirra, annar sonurinn einni og hinn tveimur.

Lagði fram kæru í fyrra

Þrjár dætranna munu samkvæmt ákæru hafa verið undir tíu ára aldri þegar brotin hófust en sú fjórða innan við sextán ára. 

Málið hafnaði loks á borði lögreglu þegar ein dætranna lagði fram kæru í fyrrasumar og hefur umfangsmikil rannsókn staðið síðan, en sex vikna löng réttarhöld hefjast 5. september við Héraðsdóm Alstahaug.

Christian Wiig, verjandi aðalákærða, föðurins, segir í samtali við dagblaðið VG að skjólstæðingur hans neiti sök í málinu. Hinu sama lýsa verjendur sonanna yfir við blaðið. Faðirinn einn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þinghaldið lokað vegna eðlis málsins

Norska ríkisútvarpið NRK fjallar einnig ítarlega um málið og hefur eftir Sigrun Dybvad, réttargæslumanni þriggja af dætrunum fjórum, að hér sé um sérstaklega erfitt mál að ræða. Þetta staðfestir saksóknaraembættið þar nyrðra en þar hafa þau boð verið látin út ganga að um lokað þinghald verði að ræða.

Refsirammi í kynferðisafbrotamálum gagnvart börnum yngri en fjórtán ára, þar sem sakir teljast sérstaklega miklar og um samverknað fleiri gerenda er að ræða, er samkvæmt 301. grein norsku hegningarlaganna 21 ár. Í þessu máli er þó gert ráð fyrir sex ára refsiramma, útskýrir Thronæs saksóknari, en ekki liggur fyrir grunur um samverknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert