Morðin hluti af trúarlegri fórnarathöfn

Fjölmiðlar í Úganda segja 17 konur hafa verið drepnar með …
Fjölmiðlar í Úganda segja 17 konur hafa verið drepnar með hryllilegum hætti frá því í maí á þessu ári. google maps

Lögreglan í Úganda hefur greint frá því að hún hafi handtekið nokkra menn í tengslum við dráp á fjölda kvenna í nágrenni höfuðborgarinnar Kampala.

Yfirmaður rannsóknarlögreglunnar, Kale Kayihura, sagði einn hinna grunuðu hafa játað á sig morð á átta konum samkvæmt fyrirskipan kaupsýslumanns. Voru drápin hluti af trúarlegri fórnarathöfn að því er Kayihura sagði íbúum í Nansana-bæjarfélaginu.

Fjölmiðlar í Úganda segja 17 konur hafa verið drepnar með hryllilegum hætti frá því í maí á þessu ári.

BBC hefur eftir Asan Kasingye, talsmanni lögreglunnar, að þó að morðin hafi öll átt sér stað í sama héraði þá tengist þau ekki.

Í flestum tilfellum hafi fórnarlömbin verið vændiskonur sem hafi verið nauðgað og þær kyrktar snemma morguns.

„Tvær voru námsmenn,“ sagði hann og bætti við að í fimm tilfellum hafi það verið fyrrverandi makar kvennanna sem myrtu þær.

Bæjarfélögin séu í um 60 km fjarlægð frá hvort öðru og að Kayihura sé með fullyrðingum sínum að bregðast við gagnrýni fjölmiðla sem segi lögreglu hafa brugðist við að hafa uppi á hinum seku.

 „Við erum búin að handtaka hina grunuðu í öllum málunum, nema einu,“ sagði Kasingye.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert