Vígamönnum fækkar en árásum fjölgar

Maður veifar fána Ríkis íslams. Þrátt fyrir mannfall í röðum …
Maður veifar fána Ríkis íslams. Þrátt fyrir mannfall í röðum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hefur árásum þeirra fjölgað. AFP

Þrátt fyrir mannfall í röðum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hefur árásum þeirra fjölgað. Guardian hefur eftir hryðjuverkasérfræðingum bandarískra stjórnvalda að samtökin hafi lagað sig að breyttum aðstæðum með því að hvetja einstaklinga í auknum mæli til að standa einir að árásum, svonefndum „lone wolf“-árásum.

Í skýrslu sem unnin var af háskólanum í Maryland segir að þó að yfirráðasvæði Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak fari minnkandi og vígamönnum þeirra fækki, séu samtökin engu að síður mannskæðustu hryðjuverkasamtök í heimi og að árásum þeirra hafi farið fjölgandi.

7.000 létust í 1.400 árásum 

Liðsmenn Ríkis íslams stóðu fyrir rúmlega 1.400 árásum í fyrra, sem kostuðu rúmlega 7.000 manns lífið. Er það tæplega 20% aukning frá árinu áður samkvæmt hnattrænum hryðjuverkagagnagrunni háskólans. Á sama tíma fækkaði hins vegar árásum hryðjuverkasamtaka um heim allan og dauðsföllum þeim tengdum um 10%

Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkaárásunum í Barcelona og Cambrils á Spáni á fimmtudaginn í síðustu viku, sem kostuðu 15 manns lífið. Þá hefur það einnig lýst yfir ábyrgð á hnífaárás í Rússlandi á laugardag þar sem átta særðust.

Lýstu yfir stuðningi við Ríki íslams og fjölguðu drápum

Guardian hefur eftir háttsettum embættismönnum í bandarísku hryðjuverkalögreglunni að árásirnar í Barcelona og Rússlandi falli vel að breyttri aðgerðaáætlun Ríkis íslams.

Auk ofbeldisaðgerða tengdum innsta kjarna Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak stóðu hópar tengdir samtökunum fyrir rúmlega 950 árásum í fyrra, sem kostuðu tæplega 3.000 manns lífið að því er segir í skýrslunni.

Árið 2016 lýstu hópar í Bangladess, Jemen, Líbýu, Afganistan, Pakistan og á Filippseyjum yfir stuðningi við Ríki íslams og fjölguðu í kjölfarið drápum og stóðu fyrir fleiri árásum en árið á undan.

Flest þessara samtaka áttu þegar í átökum, áður en þau tengdu sig Ríki íslams, og er raunar haft eftir einum embættismannanna í skýrslunni að Ríki íslams hafi „notfært sér og rænt“ samtökunum.

Ríki íslams hefur þá hvatt stuðningsmenn sína til að standa einir að árásum, líkt og þeim árásum sem orðið hafa á undanförnum árum í Manchester á Englandi, Orlando í Bandaríkjunum og Nice í Frakklandi.

„Á þessu tímabili urðum við einnig vör við aukinn fjölda stakra árásarmanna,“ sagði Erin Miller, höfundur skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert