Tónleikum aflýst vegna hryðjuverkaógnar

Svæðið var rýmt og tónleikagestum vísað frá eftir að lögreglu …
Svæðið var rýmt og tónleikagestum vísað frá eftir að lögreglu í Rotterdam barst ábending frá kollegum sínum á Spáni um yfirvofandi ógn. AFP

Gashylki fundust í rútu nærri Maassilo-tónleikahöllinni í hollensku borginni Rotterdam í dag og var tónleikum sem áttu að fara fram í tónleikahöllinni í kvöld var aflýst vegna hryðjuverkaógnar að sögn borgarstjóra í Rotterdam.

Hollenski fjölmiðillinn ANP hefur eftir lögreglu í Rotterdam að tónleikum bandarísku hljómsveitarinnar Allah-Las frá Kaliforníu, sem áttu að fara fram í höllinni í kvöld, hafi verið aflýst í framhaldi af ábendingu frá lögreglunni á Spáni. Reuters greinir frá.

Lögregla var klædd skotheldum vestum á vettvangi og var svæðið rýmt og tónleikagestum vísað í burtu að því er fregnir herma.

Spænskar númeraplötur voru á rútunni sem fannst en Ahmed Aboutaleb, borgarstjóri Rotterdam, sagði á blaðamannafundi í dag að ekki lægi ljóst fyrir hvort ábendingin um hryðjuverkaógn og rútan tengdust. Þá var bílstjóri rútunnar handtekinn og færður á lögreglustöð til yfirheyrslu að sögn Aboutaleb.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert