Var gerð tölvuárás á herskipið?

Tundurspillirinn USS John S. McCain eftir áreksturinn. Stórt gat er …
Tundurspillirinn USS John S. McCain eftir áreksturinn. Stórt gat er á hlið skipsins. AFP

Bandaríski sjóherinn hefur til rannsóknar hvort hugsanlega hafi verið gerð tölvuárás á bandaríska tundurspillinn USS John S. McCain sem hafi orðið til þess að herskipið lenti í árekstri við flutningskip á mánudaginn austur af Singapúr.

Frétt mbl.is: Tíu sjóliða saknað

Fram kemur í frétt AFP að eins sé verið að kanna hvort það sama kunni að eiga við um önnur slík tilfelli þar sem bandarísk herskip hafa lent í árekstrum við önnur skip undan ströndum Asíu. Þannig lenti til að mynda bandaríski tundurspillirinn USS Fitzgerald í árekstri við flutningaskip við Japansstrendur í júní og tundurspillirinn Porter lenti í árekstri við olíuskip út af Barein árið 2012. Skipin þrjú eru systurskip. 

Þó að sumir sérfræðingar telji ólíklegt að hægt sé að valda slíkum árekstri með tölvuárás í ljósi þeirra öflugu öryggiskerfa sem séu um borð í bandarískum herskipum telja aðrir að ekki sé hægt að útskýra árekstrana fyllilega með skírskotun í mannleg mistök og tilviljanir. Hugsanlegt sé að átt hafi verið við GPS-kerfi herskipanna í gegnum tölvuárásir.

Bandaríska beitiskipið USS Antietam.
Bandaríska beitiskipið USS Antietam. Wikipedia

Fyrir vikið hefur bandaríski sjóherinn ákveðið að láta kanna möguleikann á tölvuárás. Þetta kom fram í máli Johns Richardsons flotaforingja á mánudaginn þar sem hann sagði að ekki væri hægt að útiloka að tölvuárás hefði verið gerð á USS John S. McCain en bætti við að hann vildi þó ekki fullyrða neitt áður en niðurstöður rannsóknar á málinu lægju fyrir. 

„Við erum að skoða alla möguleika,“ sagði Richardson. Þar á meðal mögulega tölvuárás. Það hefði einnig verið gert þegar USS Fitzgerald hefði lent í árekstri. Yfirmaður Kyrrahafsflota Bandaríkjanna, Scott Swift flotaforingi, tók í sama streng á mánudaginn.

Fleiri slík mál hafa komið upp á þessu ári en vakið minni athygli. Þannig strandaði beitiskipið USS Antietam við strendur Japans í janúar og beitiskipið USS Lake Champlain lenti í árekstri við kóreskt fiskiskip í maí. Þessi tvö skip eru einnig systurskip.

Einnig hafa verið viðraðar einfaldari skýringar. Langvarandi þreyta á meðal bandarískra sjóliða og erfiðleikar við að sigla um sund sem fjöldi flutningaskipa eigi leið um.

Bandaríski tundurspillirinn USS Fitzgerald.
Bandaríski tundurspillirinn USS Fitzgerald. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert