Neitar að hafa myrt Kim Wall

Peter Madsen.
Peter Madsen. AFP

Peter Madsen, sem er grunaður um að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall, neitar að hafa myrt hana og aflimað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Kaupmannahöfn.

„Hinn grunaði neitar því að hafa framið morð og aflimað líkið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. Lík Kim Wall fannst í sjónum fyrir utan Amager á mánudag en búið var að fjarlægja höfuð, hendur og fætur af líkinu þegar það fannst.

Madsen, sem er 46 ára, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 12. ágúst vegna gruns um að bera ábyrgð á dauða Wall en hún fór með honum í siglingu á kafbát hans 10. ágúst. Madsen greindi frá því við vitnaleiðslu fyrir dómara að Wall hefði látist af slysförum um borð í kafbátnum og að hann hafi hent líkinu fyrir borð einhvers staðar í Køge-flóa.

Þeir sem annast rannsókn málsins segja að lík Wall hafi verið aflimað af ráðnum hug og eins hafi málmstykki verið komið fyrir á líkinu til þess að tryggja að það sykki. Blóð úr Wall fannst um borð í kafbátnum. 

Madsen var í héraðsdómi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september en saksóknari ætlar að ákæra hann fyrir morð. Honum verður gert að sæta geðrannsókn svo hægt sé að meta hvort hann er sakhæfur. Samkvæmt fréttum fjölmiðla er Madsen þekktur skaphundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert