Andlega sködduð eftir aftökur og loftárásir

Börn frá Raqqa í Ain Issa-flóttamannabúðunum. Save the Children vara …
Börn frá Raqqa í Ain Issa-flóttamannabúðunum. Save the Children vara við andlegu ástandi þeirra barna sem upplifað hafa grimmd Ríkis íslams. AFP

Börnin sem búa í Raqqa í Sýrlandi hafa þurft að horfa upp á grimmdina sem fylgt hefur stjórn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í borginni og í ofanálag upplifa þau nú sprengjuregnið sem fylgir áhlaupum bandamanna á borgina. Það kann að taka þau áratugi að jafna sig á þeim sálrænu áverkum sem Sýrlandsstríðið hefur valdið þeim.

Góðgerðarsamtökin Save the Children hafa tekið viðtöl við börn sem bjuggu í Raqqa og fjölskyldur þeirra. „Börnin frá Raqqa kunna að líta eðlilega út, en mörg þeirra þjást andlega vegna þess sem þau hafa séð,“ segir Sonia Khush, stjórnandi samtakanna í Sýrlandi. „Börnin í Raqqa báðu ekki um martraðirnar eða minningarnar um að sjá ástvini deyja fyrir framan augu sín.“

Barn frá Raqqa í Ain Issa-flóttamannabúðunum. Frá því að Ríki …
Barn frá Raqqa í Ain Issa-flóttamannabúðunum. Frá því að Ríki íslams náði Raqqa á sitt vald hefur borgin orðið samnefnari fyrir sumar af hrottalegustu aðgerðum samtakanna. AFP

Of hrædd til að sofa

Raashida er 13 ára og flúði með fjölskyldu sinni frá Raqqa fyrir þremur mánuðum. Þau búa nú í flóttamannabúðum norður af borginni. „Ríki íslams hjó höfuðið af fólki og skildi lík þeirra eftir á jörðinni. Við sáum þetta og gátum ekki tekið því,“ segir Raashida.

„Mig langaði til að sofa en gat það ekki þegar ég mundi hvað ég hafði séð. Og ég vildi ekki sofa – heldur hélt mér vakandi af því að ég var svo hrædd.“

Frá því að Ríki íslams náði Raqqa á sitt vald hefur borgin orðið samnefnari fyrir sumar af hrottalegustu aðgerðum samtakanna – fólk hefur verið hálshöggvið á almannafæri, grýtt til bana og börn hafa verið látin læra stefnu þessara íslömsku öfgatrúarsamtaka í skólum.

Aoun, pabbi Raashidu, sagðist hafa reynt að halda börnum sínum fjarri hryllingnum en að þau hefðu smátt og smátt vanist óhugnaðinum.

„Þetta eru enginn „börn“ lengur, við búum öll í víti núna,“ sagði hann.

Hætta á loftárásir eða leyniskyttur

Talið er að allt að 25.000 manns séu enn föst í Raqqa, þar sem Bandaríkjaher og bandamenn þeirra herða nú sóknina að borginni, og að tæpur helmingur þeirra séu börn.

Vígamenn Ríkis íslams í Raqqa. Undir ógnarstjórn samtakanna í borginni …
Vígamenn Ríkis íslams í Raqqa. Undir ógnarstjórn samtakanna í borginni hefur fólk verið hálshöggvið á almannafæri, grýtt til bana og börn hafa verið látin læra stefnu þessara íslömsku öfgatrúarsamtaka í skólum. HO

Save the Children vara við áhrifum sprengjuregnsins á þær fjölskyldur sem enn eru fastar í borginni og sem standa frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að vera þar áfram og eiga þá á hættu að vera sprengdar í loft upp, eða fara og eiga þá á hættu að vera skotnar af vígamönnum Ríkis íslams eða mögulega stíga á eina þeirra jarðsprengja sem vígamennirnir hafa komið þar fyrir.

Fingur höggnir af og munnar saumaðir saman

Leyniskyttur Ríkis íslams skutu á Yaacoub, systkini hans níu og foreldra hans þegar þau flúðu borgina fyrir þremur mánuðum. Yaacoub, sem er 12 ára, og systkini hans lýstu refsingum vígamanna – m.a. því þegar fólk hafi verið grýtt, fingur höggnir af reykingamönnum og munnur þeirra saumaður saman.

„Þeir fylltu eitt hringtorgið af höfðum fólks sem þeir voru búnir að hálshöggva. Við sáum þá gera það og sáum þá líka höggva af hendur,“ sagði Yaacoub.

Fuad, bróðir hans sem er tveggja ára, særðist í loftárás.

Hundruð farist í árásum bandamanna

Eftirlitsaðilar segja hundruð almennra borgara hafa farist í árásum bandamanna frá því að þeir náðu að komast inn í Raqqa snemma í júní á þessu ári.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til þess að vopnahlé verði gert svo almennum borgurum verði gert kleift að flýja. Save the Children styður þá hugmynd, en segir það þó bara vera upphafið á löngu ferli því það verði líka að tryggja andlega heilsu barnanna. „Það er nauðsynlegt að þau börn sem hafa komist í burtu og lifað af fái sálfræðiaðstoð til að hjálpa þeim að takast á við áfallið af því að verða vitni að tilgangslausu ofbeldi og grimmd,“ sagði Khus.

„Við eigum á hættu að dæma heila kynslóð barna til lífstíðar þjáninga ef ekki er tekið á andlegri heilsu þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert