4 milljóna sekt við notkun plastpoka

Talið er að Keníabúar noti um 24 milljónir plastpoka í …
Talið er að Keníabúar noti um 24 milljónir plastpoka í hverjum mánuði. Skjáskot/Twitter

Bann við sölu, notkun og framleiðslu plastpoka tók gildi í Kenía í dag. Þeir sem gerast sekir um plastpokanotkun eða framleiðslu geta átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsisdóm eða sekt að andvirði rúmra fjögurra milljóna króna. Þeir framleiðendur sem nota plastfilmu utan um matvörur sínar eru enn undanþegnir banninu, en þeim ferðamönnum sem koma til Kenía með fríhafnarinnkaup sín í plastpoka er gert að skilja pokana eftir á flugvellinum.

Stjórnvöld í Kenía segja bannið muni hjálpa til við að vernda umhverfið. Framleiðendur plastpokanna hafa hins vegar bent á að það muni kosta 80.000 manns vinnuna. Talið er að Keníabúar noti um 24 milljónir plastpoka á mánuði.

Dómstóll í Kenía neitaði á föstudag að taka upp kæru sem lögð var fram gegn banninu. 

20 plastpokar fundist í einni kú

Kenía er ekki eina ríkið í Afríku til að gera plastpokann útlægan, en þegar er búið að banna plastpoka í Rúanda, Máritaníu og Erítreu.

Haugar af plastpokaúrgangi sjást víða í Kenía, líkt og í fjölda annarra Afríkuríkja. Dýr eru oft á beit við ruslahaugana og umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að mikið magn plastpoka sé tekið úr innyflum skepna í sláturhúsum í Naíróbí í Kenía. Upp undir 20 plastpokar hafa fundist í einni kú og vekur plastmagnið ótta um að plasteitrun kunni að leynast í nautakjöti.

Judy Wakhungu umhverfisráðherra segir það taka plastpokana á bilinu 20 - 1.000 ár að eyðast í náttúrunni. „Plastpokar eru nú stærsta áskorunin varðandi úrgangslosun í Kenía. Þetta er orðin umhverfismartröð okkar sem við verðum að sigrast á,“ sagði Wakhungu við BBC.

Evrópsk rannsókn hefur sýnt fram á að nota þarf hvern pappírspoka þrisvar til að vinna upp á móti kolefnisfótsporinu sem framleiðsla hans felur í sér, nota þarf hvern plastpoka fjórum sinnum og hvern bómullarpoka 113 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert