ESB reiðubúið að ræða um viðskipti?

Brexit.
Brexit. AFP

Franskir embættismenn hafa gefið til kynna að ráðamenn í Frakklandi séu hlynntir því að hafnar verði viðræður um viðskiptasamning á milli Bretlands og Evrópusambandsins í október vegna útgöngu landsins úr sambandinu. Fjallað er um málið á fréttavef Daily Telegraph en þar segir að fleiri ríki Evrópusambandsins séu hlynnt þessu.

Til þessa hefur Evrópusambandið sagt að slíkar viðræður séu ekki í boði fyrr en samið hafi verið um ákveðin atriði. Þar með talið fjárkröfu Evrópusambandsins á hendur Bretum, réttindi ríkisborgara þess í Bretlandi eftir að Bretar segja skilið við sambandið og framtíðarfyrirkomulag á landsmærunum á milli Írlands og Norður-Írlands.

Fréttirnar þykja benda til ósamstöðu á milli ríkja Evrópusambandsins um það með hvaða hætti eigi að nálgast viðræðurnar við Bretland. Þær þykja einnig benda til vaxandi áhyggja hjá Evrópusambandinu um að tíminn til þess að semja um útgöngu Bretlands þannig að það hafi sem minnst neikvæð áhrif sé að verða af skornum skammti.

Fréttirnar þykja að sama skapi styrkja stöðu breskra stjórnvalda. Franskir ráðamenn vilja enn fremur að samið verði við Breta um þriggja ára aðlögunartímabil eftir að Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu, sem gert er ráð fyrir að verði í lok mars 2019, greiði áfram í sjóði sambandsins meðan á því stendur og fari að lögum þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert