Norður-Kórea skýtur flugskeyti yfir Japan

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu skutu flugskeyti yfir norðurhluta Japan nú fyrir skömmu að því er japönsk yfirvöld greina frá.

Viðvörunarkerfi japanskra yfirvalda sendi boð til íbúa á svæðinu um að gera varúðarráðstafanir vegna þessa en að því er fram kemur í ríkisfjölmiðlinum NHK hefur skotið ekki valdið nokkrum skaða.

Japanski herinn gerði ekki tilraun til að skjóta niður flugskeytið sem fór í gegnum japanska lofthelgi um klukkan sex um morgun að staðartíma í Japan, laust upp úr klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, kveðst munu gera allt sem í sínu valdi stendur til að vernda japanskan almenning. „Við munum leggja okkur alla fram til að tryggja líf borgaranna,“ segir Abe í samtali við fjölmiðla sem hann gekk inn á skrifstofu sína á leið á neyðarfund vegna nýjustu tilburða Norður-Kóreumanna.

Þá segja yfirvöld í Suður-Kóreu að nágrannar þeirra í norðri hafi skotið upp flaug snemma í morgun nærri höfuðborginni Pyongyang.

Frétt Guardian.

Uppfært 22:50:

Talsmaður Pentagon, varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, staðfesti fyrir skömmu að flugskeytið hefði flogið yfir Japan. 

„Við metum það sem svo að Norður-Kórea hafi skotið upp flugskeyti innan síðustu 90 mínútna. Við getum staðfest að flugskeytið er flogið yfir Japan,“ sagði Robert Manning, talsmaður Pentagon. Þá sagði hann bandarísk yfirvöld vera að rannsaka málið.

Þá sagði hann bandarísku loftvarnastofnunina NORAD hafa staðfest að loftskeytið væri ekki ógn við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert