Sea Shepherd hindra ekki Japana í ár

Skip Sea Shepherd.
Skip Sea Shepherd. AFP

Hvalaverndunarsamtökin Sea Shepherd munu ekki reyna að hindra japönsk hvalveiðiskip við veiðar við suðurskautið á þessu fiskveiðiári. Þetta er í fyrsta skipti í 12 ár sem samtökin sigla ekki skipi sínu á þessum slóðum í þessum tilgangi. Að sögn Paul Watson stofnanda samtakanna hafa þau ekki roð í tækni japanska skipaflotans sem getur staðsett skip samtakanna og þar með forðast þau auðveldlega á miðunum. BBC greinir frá. 

Watson sakar jafnframt Ástralíu, Nýja-Sjáland og Bandaríkin um að styðja Japana. „Japanar halda úti hernaðarlegu eftirliti til að fylgjast með skipum Sea Shepherd samtakanna í rauntíma í gegnum gervihnött svo þau vita nákvæmlega hvar skip okkar eru og geta þar með forðast þau,“ segir Watson í yfirlýsingu. 

Einnig sagði Watson í viðtali við fréttamiðilinn Australian Broadcasting Corp að samtökin hefðu hvorki fjármagn né þá tækni sem Japanar byggju yfir. „Við ætlum hins vegar að finna aðra leið til að fást við þá og við munum gera það,“ sagði hann jafnframt. 

Í viðtalinu vildi hann ekki tilgreina hvaða leiðir samtökin muni nota.

Á síðustu árum hafa Japanar og hval­vernd­un­ar­sam­tök­in Sea Shepherd lent í tíðum átökum. Japanar hafa heitið því að halda hval­veiðum sín­um við Suður­skautið áfram en skip samtakanna hafa ítrekað unnið skemmd­ir á japönsku hval­veiðiskipunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert