Þvertaka fyrir einræði í Venesúela

Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sakar Nicolas Maduro, forseta Venesúela, um „einræði“ í ræðu sem hann hélt í gær. Ræðan er sögð vera mesti áfellisdómur sem evrópskur þjóðarleiðtogi hefur látið falla. Yfirvöld í Venesúela þvertaka fyrir þessar ásakanir og saka forsetann um að „skipta sér af“ málum sínum.

„Þetta eru greinileg afskipti af innanríkismálum Venesúela,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Venesúela. Ummælin eru greinileg móðgun við landið og virðast knúin af sífelldri þráhyggju að ráðast á þegna landsins, segir jafnframt í yfirlýsingunni. 

Fyrr í mánuðinum kom saman um­deilt stjórn­lagaþing sem verður m.a. falið að end­ur­skrifa stjórn­ar­skrá lands­ins. Ný­kjör­inn for­seti stjórn­lagaþings­ins hefur varað alþjóðasam­fé­lagið við því að skipta sér af mál­um í land­inu. 

Að minnsta kosti 125 manns hafa látist í óeirðum í landinu. Íbúar og stjórnarandstæðingar saka Maduro um einræðistilburði. Fjöldi frétta berst um að íbúar svelti og dæmi eru um að dýr í dýragörðum hafi verið drepin og soltnir íbúar hafi lagt sér þau til munns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert