Brösuglega gengur í Brexit-viðræðum

Michel Barnier.
Michel Barnier. AFP

Enginn verulegur árangur í lykilmálum hefur náðst í viðræðum Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu. Þetta sagði aðalsamningamaður sambandsins, Michel Barnier, á blaðamannafundi í Brussel í dag með David Davis, ráðherra útgöngumála í bresku ríkisstjórninni, samkvæmt frétt BBC.

Barnier sagði viðræðurnar á því stigi að enn væri talsvert langt í það að hægt væri að ræða um viðskiptasamning á milli Evrópusambandsins og Bretlands. Enn fremur væri ákveðinn skortur á trausti á milli aðila. Davis hvatti sambandið hins vegar til þess að beita meira hugmyndaflugi og sveigjanleika í nálgun sinni.

Engu að síður sagði Barnier að gagnlegar viðræður hefðu átt sér stað varðandi framtíð landamæranna á milli Írlands og Norður-Írlands. Bretar vilja hefja viðræður um viðskiptasamning sem fyrst en Evrópusambandið hefur sagt að það kæmi ekki að því fyrr en nægjanlegur árangur næðist í ákveðnum lykilmálum. Þar á meðal er fjárkrafa Evrópusambandsins á hendur Bretlandi.

„Eins og málin eru að þróast í augnablikinu erum við nokkuð langt frá því að geta sagt að nægjanlegur árangur hafi átt sér stað svo ég geti lagt það til við ráðherraráðið að hafnar verði viðræður um framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert