Prinsessa fólksins var öll

20 ár eru liðin frá því Díana prinsessa lést. Fjöldi …
20 ár eru liðin frá því Díana prinsessa lést. Fjöldi fólks minnist hennar í dag. AFP

Tuttugu ár eru liðin frá því að Díana prinsessa af Wales og kærasti hennar, Dodi Fayed, biðu bana í árekstri í undirgöngum í París, á flótta undan ljósmyndurum sem eltu þau á röndum, svokölluðum „paparazzi“; ljósmyndurum sem sérhæfa sig í að mynda frægt fólk og selja hæstbjóðanda.

Díana prinsessa hafði þá átt stormasamt líf eftir að hafa gengið í hjónaband með Karli Bretaprins, nýorðin tvítug en í afar óhamingjusömu hjónabandi eignaðist hún tvo drengi, Vilhjálm og Harry. Díana sjálf náði þrátt fyrir einmanaleika að skapa sér sitt eigið rými, þar sem hún varð fljótt að „prinsessu fólksins,“ sem almenningur elskaði. Þar stóð hún framarlega í mannúðarstörfum, þar sem hún vakti athygli á þeim þúsundum mannslífa sem jarðsprengjur kostuðu, faðmaði HIV-smitaða, heimsótti barnaspítala og hafði einstakt lag á að láta öllum líða eins og þeir væru sérstakir.

Þegar Díana lést var hún 36 ára, nýskilin við Karl Bretaprins, en með henni og óhamingju hennar sem var þá að verða ljós, hafði þjóðin mikla samúð. Þrátt fyrir alla þá umfjöllun og athygli sem líf Díönu hafði fengið kom það öllum hins vegar á óvart hve mikil áhrif lát hennar hafði á tilfinningar milljóna manna um allan heim.

AFP

Man ekki eftir öðru álíka 

„Þetta var mjög sérstök upplifun og með sérstökustu verkefnum sem ég hef sinnt fyrir blaðið þótt maður hafi gert ýmislegt,“ segir Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, sem fyrir 20 árum var sendur sem blaðamaður blaðsins til London til að vera þar í kringum útför Díönu prinsessu.

„Það var eins og London væri öll á valdi Díönu. Í öllum blómabúðum var örtröð, myndir af Díönu í gluggum kaffihúsa og veitingastaða og þegar við nálguðumst Kensington-höll sá maður hvernig haugarnir af blómum, krönsum og öðru sem fólk skildi eftir til minningar um hana höfðu myndað nokkurra metra hátt lag sem náði langt út frá hliðinu. Orðsendingar fylgdu oftast með og þær voru af öllum toga og mjög innilegar. Díana hafði verið hálfútskúfuð af konungsfjölskyldunni og var ekki í takti við bresku yfirstéttina en höfðaði þeim mun meira til almennings og það sást á orðsendingunum hvað hún átti mikið í honum. Ég man að einhver hafði skrifað: „Ég á í sömu vandræðum með eiginmann minn.“ Og óskaði svo Díönu alls góðs og sagðist myndu biðja fyrir henni. Þannig að fólk var afar persónulegt í því sem það skrifaði.“

Karl lýsir því hvernig hann fékk beint í æð bæði þá miklu reiði sem skapaðist meðal almennings yfir því að konungsfjölskyldan hélt sig til baka og að ekki var flaggað í Buckingham-höll, sem var ekki til siðs því drottningin var í Skotlandi, og líka þá miklu sorg sem lá yfir öllu. Karl segir borgarbúa hafa átt verulega erfitt með sig.

Manstu eftir einhverju dauðsfalli sem hefur haft víðlíka áhrif á heimsbyggðina á seinni tímum?

„Í fljótu bragði ekki. Ég var rétt fæddur þegar Kennedy var skotinn og upplifði það því ekki en ég man vel hvar ég var þegar Lennon var skotinn, sem var sérstaklega sláandi því hann féll fyrir hendi morðingja. Díana var náttúrlega ekki myrt þótt til séu samsæriskenningar en ég held að það hafi samt vakið enn meiri viðbrögð þegar hún lést, ég man ekki eftir öðru eins satt best að segja. Við fjölluðum um þetta í löngu máli, sex blaðsíðna umfjöllun inni í blaðinu og öll forsíðan strax fyrsta útgáfudaginn eftir lát hennar, og maður fann að fólk gleypti í sig hvert orð sem var skrifað og sagt um þetta. Þótt einhverjum virðist það vera úr öllu samhengi að fjalla um lát hennar með svona veglegum hætti held ég að ekki einn einasti maður hafi gagnrýnt það.

Fólk úti um allan heim syrgði konu sem hafði náð tökum á allri heimsbyggðinni, sem er mjög erfitt að útskýra hvernig getur gerst. Díana var náttúrlega ekki fullkomin en hún var svo blátt áfram og eðlileg, með gott hjarta. Ég var auðvitað þarna í hlutverki blaðamanns að fylgjast með, ekki þátttakandi, en svo er maður bara mannlegur og átti bágt með sig sjálfur í þessu andrúmslofti.“

Lára Björg Björnsdóttir
Lára Björg Björnsdóttir Ljósmynd/úr einkasafni

Tók útförina upp á VHS og horfir reglulega á

„Ég var að ganga inn um útidyrnar, tvítug, nýkomin úr útilegu á Þingvöllum. Þar var móðir mín sem mætti mér í forstofunni, rauðeygð og mjög alvarleg á svip. Ég man hvað mér brá, hélt að einhver nákominn hefði dáið þegar hún sagði; „Díana er dáin.“ Ég bara trúði þessu ekki, spurði hana hvort hún væri viss. Þarna voru ekki allir með gsm og enginn hringdi í mig í útileguna svo ég hafði ekkert heyrt fyrr en ég kom heim um kvöldið,“ segir Lára Björg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og sagnfræðingur, sem bætir við að hún hafi alla tíð síðan hatað útilegur og útivist og tengir þetta þessu.

Lára horfði á og tók upp jarðarförina sem var sýnd beint í sjónvarpinu á VHS-spólu og horfði á hana strax tvisvar til þrisvar í viðbót nokkrum dögum síðar.

„Díana náði alveg einstakri tengingu við fólk með því að vera svo góð við svo ótrúlega marga og brautryðjandi á því sviði. Hún var fyrsta manneskjan sem faðmaði og snerti HIV-smitaðan mann, á tíma þegar því var ennþá haldið fram að HIV-veiran bærist mögulega með snertingu. Sjálf sagði hún frá því að hún hefði ekki fengið hlýlegt uppeldi og því var það henni sérstakt kappsmál að veita sonum sínum eins ástríkt uppeldi og hægt var og hún tengdi vel við þá sem voru einmana, sem voru á einhvern hátt útskúfaðir, voru ekki samþykktir og leið ekki vel.

Það er held ég ástæðan fyrir þessari miklu tengingu sem hún náði við fólk. Því þú getur alveg sagst vera góður og standir með fólki en þú þarft að sýna það. Það tókst alveg áreynslulaust hjá henni, það var þannig í alvörunni. Hvernig hún náði að hrífa alla heimsbyggðina með sér hafði öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar þá ekki tekist í sama mæli.“

Áttu útförina ennþá á VHS-spólunni?

„Ég hendi rosalega miklu, er ekki mikið fyrir að geyma hluti en ég á kassa með nokkrum hlutum og í þessum kassa er þessi spóla sem ég hef horft á kannski einu sinni á ári. Svo á ég líka minningarbók sem vinkona gaf mér um Díönu og ævisögu hennar sem ég erfði frá ömmu minni og var búin að lesa hana sem unglingur.

Ég veit að sumt fólk ranghvolfir í sér augunum yfir „royalistum“, ímyndar sér að það sé bara tilgangslaust röfl um postulín, en ástæðan fyrir því að ég og fleiri fíla kóngafólk er að þetta er fólk sem er oft að vinna gott starf fyrir heiminn, lætur sig annað fólk varða, vekur athygli á alls kyns málefnum og tekur upp hanskann fyrir fólk sem á sér enga talsmenn. Það er stór hluti af þessu og þar var hún Díana okkar fremst í flokki. Punkturinn í þessu er í raun sá að fólk laðast að fólki sem er gott, sem gerir eitthvað sem skiptir einhverju andskotans máli fyrir aðra og það má ekki gera lítið úr því og afgreiða hana sem bara einhverja prinsessu.“

Bogi Ágústsson.
Bogi Ágústsson.

Vanmátum áhrif Díönu

„Ég held að við fréttamenn sem vorum minna í því að skrifa fréttir af henni höfum vanmetið stöðu Díönu meðal bresku þjóðarinnar en svo kom í ljós hve mikil áhrif hennar voru þegar hún lést,“ segir Bogi Ágústsson, fréttamaður á RÚV.

„Mikið hafði verið fjallað um hjónabandserfiðleika hennar og fréttir af henni slúðurtengdar og þessi mikla þjóðarsorg sem risti svo djúpt kom því mörgum fréttamönnum í opna skjöldu.

Inn í þessa miklu sorg spilar eflaust að þetta urðu mjög tragísk endalok á því sem hefði átt að vera ævintýri. Veruleiki þessarar fallegu ungu konu, sem hafði gifst í beinni útsendingu, reyndist svo ekki neinn dans á rósum. Til að bæta gráu ofan á svart má rekja slysið til þess að hún var beinlínis lögð í einelti af fjölmiðlum,“ segir Bogi en hann var heima hjá sér seint að kvöldi þegar hann sá fregnir af slysinu á Sky-sjónvarpsstöðinni. Hann segir þennan atburð sýna þá breytingu sem var orðin í fjölmiðlum og nefnir að þegar prinsarnir voru litlir hafi þeir t.d. miklu meira fengið að vera í friði, svo sem í fríi með föður sínum.

„Þótt mér finnist konungdæmi almennt mikil tímaskekkja á 20. og 21. öldinni þá er mikill munur á því hvernig komið er fram við kóngafólk á Norðurlöndum og í Bretlandi. Bretinn kemur fram við konungsfjölskyldu sína af hálfslepjulegri virðingu en er samt tilbúinn að ganga mjög hart að henni. Konungdæmið í t.d. Danmörku er einhvern veginn meira á jafningjagrundvelli, þar eru Margrét drottning og Hinrik líka bara fólk sem gera má grín að. Slíkt sæi maður ekki í Bretlandi.“

Helga Sverrisdóttir
Helga Sverrisdóttir Árni Sæberg

 Rennbleytti föt eiginmannsins með tárum

„Ég var ófrísk að tvíburunum mínum þegar ég vaknaði snemma og sá á Textavarpinu að Díana hefði lent í slysi. Ég man að ég hringdi í manninn minn til að segja honum frá þessu, hann var staddur í Borgarnesi, og vakti hann,“ segir Helga Sverrisdóttir hjúkrunarfræðingur.

„Tilviljun réð því að við vorum að fara til London, einmitt helgina eftir, og vorum því þar þegar Díana var jörðuð. Borgin var undirlögð og það kom mér algjörlega í opna skjöldu að sjá fullorðna karlmenn með blómvönd í jakkafötum hágrátandi úti á götu. Ég get ekki ímyndað mér viðlíka viðbrögð heillar þjóðar og heimsins yfir láti nokkurrar manneskju í dag. Allir voru hreinlega niðurbrotnir en við gátum séð af hótelherberginu þegar jarðarfararskrúðgangan fór framhjá og ég hef aldrei á ævinni séð annað eins blómahaf.“

Helga segist hafa grátið með þjóðinni þótt hormónana hefði líklega ekki þurft til. „Bjarni eiginmaður minn lagði sig á hótelherberginu og þegar hann vaknaði spurði hann mig hverju ég hefði hellt ofan á sig en hann var þá allur í rennandi blautum fötum eftir tár tvíburamóðurinnar tilvonandi!“

Helga við blómahafið fyrir 20 árum.
Helga við blómahafið fyrir 20 árum.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert