Hættur í lögreglunni

AFP

Lögreglumaður í Georgíu, sem átti yfir höfði sér brottrekstur vegna ummæla sem hann lét falla, hefur látið af störfum eftir tæplega þriggja áratuga starf.

Myndskeið þar sem lögreglumaðurinn Greg Abbott segir við hvíta konu sem hann hafði stöðvað að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur þar sem lögreglan dræpi bara svart fólk hefur farið víða.

Um er að ræða myndskeið sem tekið var upp á bílamyndavél (dash-cam) og sést konan segja við Abbott að hún þori ekki að hreyfa hendurnar þegar hann biður hana um að taka upp símann þar sem hún hafi séð of mörg myndskeið með lögreglunni.

Abbott, sem var við umferðareftirlit, segir við hana að hún þurfi ekkert að óttast enda sé hún ekki svört; „Við drepum bara svart fólk,“ segir Abbott í myndskeiðinu sem er tekið upp í júlí í fyrra. „Manstu ekki? Við drepum aðeins svart fólk“.

Lögreglustjórinn í Cobb-sýslu, Mike Register, greindi blaðamönnum frá því í gær að Abbott yrði vikið frá störfum. „Það er einfaldlega ekkert rými fyrir ummæli af þessu tagi innan lögreglunnar,“ sagði Register. „Ég tel að það skipti engu þó að þú teljir að orð þín hafi verið slitin úr samhengi. Ummælin eru óafsakanleg og óviðeigandi,“ bætti hann við.

Samkvæmt frétt Atlanta Journal-Constitution á Abbott að hafa sent tölvupóst til sýsluyfirvalda um að hann hafi ákveðið að fara á eftirlaun eftir tæplega þriggja áratuga starf hjá lögreglunni.

Myndskeiðið var birt eftir að svæðissjónvarpsstöð óskaði eftir því á grundvelli upplýsingalaga. Tímaskráning á myndskeiðinu sýnir að ummælin eru látin falla þegar umræðan stóð sem hæst um dráp hvítra lögreglumanna á svörtum einstaklingum. Má þar nefna Alton Sterling og Philando Castile sem voru skotnir til bana á stuttu tímabili í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert