Vilja breytta stjórnskipan án Assad

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands.
Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Frakkar vilja breytta stjórnskipan í Sýrlandi án forsetans Bashar al-Assad. „Við getum ekki byggt upp frið með Assad við völd,“ sagði Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, í útvarpsviðtali.

„Hann getur ekki verið lausnin,“ bætti Drian við, sem var áður varnarmálaráðherra Frakklands. „Lausnin er að búa til tímalínu fyrir breytta stjórnskipan sem getur leitt til nýrrar stjórnarskrár og kosninga og þessi breyting getur ekki orðið með Bashar al-Assad.

Sex ár eru liðin síðan borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst með tilheyrandi dauðsföllum og flóttamannavanda.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, greindi frá því í júlí að frönsk stjórnvöld settu ekki þau skilyrði fyrir breytingum í Sýrlandi að Assad þyrfti að fara frá völdum. Bætti hann við að hann kæmi ekki auga á „lögmætan eftirmann“ hans.

Frönsk stjórnvöld hafa stutt andstöðuna gegn Assad frá upphafi styrjaldarinnar en þar hafa 320 þúsund manns fallið og miljónir þurft að yfirgefa heimili sín.

Macron sagði að baráttan gegn Ríki íslams væri í forgangi hjá Frökkum. Þar í landi hafa 230 manns farist í hryðjuverkaárásum frá árinu 2015. Sumar árásanna voru skipulagðar í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert