Nýr frumskógur að rísa í Brussel?

Hundruð flóttamanna hafa komið sér fyrir í skugga háhýsa í miðborg Brussel og óttast ýmsir að nýr frumskógur (jungle) sé í sjónmáli - eitthvað svipað og ólöglegar búðir flóttafólks voru nefndar í frönsku hafnarborginni Calais. Draumur þeirra er sameiginlegur í flestum tilvikum - að komast til fyrirheitna landsins, Bretlands.

Á kvöldin fara flóttamennirnir, flestir frá Súdan og Erítreu, í almenningsgarðinn Maximilien sem er við hliðina á Gare du Nord lestarstöðinni, og finna sér næturstað. Flestir þeirra eru ungir að árum og hafa lifað af langt og hættulegt ferðalag, fyrst í gegnum ríki í Norður-Afríku, þaðan siglingu yfir Miðjarðarhafið og síðan gegnum Evrópu þar sem lögregla og landamæraverðir reyna að stöðva för þeirra. 

Einn þeirra, Adam sem er 25 ára gamall, ætlar að óska eftir alþjóðlegri vernd frá stjórnvöldum í Belgíu. London er of fjarlægt markmið eftir að hafa farið frá heimalandinu Súdan, þaðan til Tsjad og síðan tók við sex mánaða bið í Líbýu. Erfið bið eins og Adam lýsir því í samtali við AFP fréttastofuna. 

Maximilien garðurinn í Brussel.
Maximilien garðurinn í Brussel. AFP

„Þetta er of erfitt,“ segir Adam þar sem hann ræðir við fréttamann á heitu ágústkvöldi í garðinum. Skammt frá honum má sjá vændiskonur stunda viðskipti og fíkla leita að næsta skammti. „Hér er möguleiki á að upplifa drauminn,“ segir hann.

En þar sem hann er ólöglegur í Belgíu, líkt og flestir ef ekki allir í þessum hópi, verður hann að reiða sig á stuðning aðgerðarsinna og hjálparsamtaka um aðstoð. Belgísk yfirvöld neita að veita fólkinu aðstoð enda telja þau að fólkið ætli sér aðeins að stoppa stutt á leið sinni til Bretlands.

Adam, líkt og margir þeirra 500 til 600 flóttamanna sem halda til í garðinum hafa fengið þau svör að koma sér sem hraðast í burtu frá Belgíu.

 Theo Francken, sem fer með málefni flóttafólks og hælisleitenda í ríkisstjórn landsins, seegir enga ástæðu til þess að bjóða ólöglegu fólki um borð enda sé það ekki að sækja um hæli í Belgíu. 

Flestir þeirra, þar á meðal Adam, á yfir höfði sér að vera vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fingraför voru tekin af Adam við komuna til Ítalíu þannig að belgísk yfirvöld gætu tekið ákvörðun um að senda hann þangað á hverri stundu. En belgísk yfirvöld hafa að minnsta kosti ekki valið þá leið hingað til en samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni má senda hælisleitenda til þess ríkis þar sem viðkomandi kom fyrst til. 

Samtök lækna, Médecins du Monde, eru ein þeirra samtaka sem hafa veitt flóttamönnum aðstoð. 

Stephane Heymans, sem stýrir aðgerðum samtakanna, segir að um 20% þeirra séu börn að aldri og þau hafi ekki hugmynd um réttindi sem þau njóta í Belgíu.

Á hverju kvöldi koma sjálfboðaliðar inn í garðinn og elda mat fyrir flóttafólkið. Kostgangarnir verða sífellt fleiri, fyrir fimm mánuðum voru þeir 200 talsins nú eru þeir um 600.

Í garðinum má sjá unga menn liggja á grasinu, aðrir eru að hengja upp þvottinn sinn á leiksvæðum en í dögun hverfa þeir á brott og Maximilien garðurinn verður að mestu eins og venjulega.

Flestir ungu mannanna fara yfir á brautarstöðina en þaðan fara lestir til borga og bæja við Norðursjó. Ferðalagið þangað er ekki hættulaust því lögregla fylgist grannt með, hvort heldur sem er á brautarstöðvum eða meðfram hraðbrautinni. Eins eru lögreglumenn úti um allt í hafnarborginni Zeebrugge.

Að sögn lögreglunnar í Vestur-Flæmingjalandi handtaka þeir yfirleitt um 100 flóttamenn á viku það sem af er ári. Flestir þeirra eru að reyna að komast til Bretlands líkt og þeir sem héldu til í frumskóginum hinum megin við landamærin fyrir nokkrum misserum. 

Maximilien garðurinn að næturlagi.
Maximilien garðurinn að næturlagi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert