Fellibylurinn Irma hefur náð 215 km/klst

Kraftur Irmu á eftir að aukast.
Kraftur Irmu á eftir að aukast. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Flórída og á Karabísku-eyjunum vegna fellibylsins Irmu sem hefur náð mesta styrk eða styrkleika fjögur. Fellibylurinn hefur þegar náð vindhraða upp á 215 km/klst og búist er við að hann verði enn kraftmeiri á næstu 48 klukkustundum, samkvæmt veðurspá Miðstöðvar fellibylja. 

Úrkoman sem fellur gæti orðið allt að 25 sentímetrar og ölduhæðin gæti orðið allt að sjö metrar. Þetta kemur fram á CNN-fréttaveitunni. 

Fellibylurinn mun fara yfir norðurhluta Leeward-eyjar á þriðjudagskvöld og fram á miðvikudag, samkvæmt veðurspá. 

Fellibylurinn Harvey sem olli miklu tjóni í Texas og Louisiana náði einnig styrkleika fjögur.

Ríkisstjóri Puerto Rico, þar sem 3,5 milljónir manna búa, hefur kallað eftir aðstoð björgunarsveita og tilkynnt að opnuð verði athvörf sem geta hýst allt að 62 þúsund manns. Skólum í ríkinu verður lokað á morgun.

Bandarískt flugmóðurskip verður skammt undan þar sem sjúkraaðstoð verður í boði, auk þess sem tugir flugvéla verða í viðbragðsstöðu ef bjarga þarf fólki í neyð.

Hér er hægt að fylgjast með Irmu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert