Kæri herra forseti skrifaði Obama til Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Barack Obama saman á tröppum þinghússins …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir að sá fyrrnefndi tók við forstaembættinu í janúar. AFP

Síðustu stundir sína á forsetastóli handskrifaði Barack Obama bréf til arftaka síns Donald Trumps, braut saman í umslag og skrifaði utan á: „Herra forseti.“

CNN hefur nú birt bréf Obama til hins umdeilda arftaka síns, sem óneitanlega hefur gustað um fyrstu mánuðina í forsetaembættinu.

„Kæri herra forseti,“ skrifaði Obama.

„Til hamingju með einstaka kosningabaráttu. Milljónir hafa bundið vonir sínar við þig og við öll, óháð flokkaskiptingu, vonumst eftir aukinni velsæld og öryggi í forsetatíð þinni.

Þetta er einstakt embætti, án skýrrar leiðarlýsingar fyrir góðan árangur. Ég veit því ekki hvort ráð frá mér muni reynast þér sérlega hjálpleg.“

Kvaðst Obama engu að síður ætla að deila með Trump nokkrum hugleiðingum frá síðustu átta árum.

„Í fyrsta lagi þá höfum við báðir verið blessaðir með velgengni, þó á ólíkan hátt sé. Það er eru ekki allir svo heppnir. Þess vegna er það okkar að gera það sem við getum til að greiða leiðina að velgengni fyrir hvert barn og fjölskyldu sem er tilbúin að leggja hart að sér.

Í öðru lagi þá er leiðtogahlutverk Bandaríkjanna á heimsvísu ómetanlegt. Það er okkar hlutverk að viðhalda í gegnum gjörðir og fordæmi því skipulagi sem haldist hefur í alþjóðamálum frá lokum kalda stríðsins og sem auður okkar og öryggi byggir á.

Í þriðja lagi þá erum við bara tímabundið í þessu embætti. Það gerir okkur að varðmönnum þessara lýðveldisstofnanna og hefða – s.s. lög, aðskilnað ríkisvalds, jafnréttis og mannréttinda – sem forfeður okkar börðust og blæddi fyrir.

Óháð daglegu amstri stjórnmálanna þá er það okkar hlutverk að tryggja að þessi tól lýðveldisins haldist jafn sterk og þau voru er við tókum við.

Að lokum, gefðu þér tíma, í öllu amstri viðburða og ábyrgðarinnar til að njóta stunda með vinum og fjölskyldu. Þau munu koma þér í gegnum hinar óumflýjanlegu erfiðu stundir.

Michelle og ég óskum ykkur Melaniu alls hins besta í þessu nýja ævintýri og erum reiðubúin að hjálpa ykkur á hvern þann hátt sem við getum.

Gangi þér vel og góða ferð,

BO“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert