Brexit var „heimskuleg ákvörðun“

AFP

Breskir kjósendur sem kusu með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) í þjóðaratkvæðagreiðslunni á síðasta ári tóku heimskulega ákvörðun sem enn er mögulegt lagalega séð að snúa við í kjörklefanum. Þetta sagði Martin Selmayr, starfsmannastjóri Jean-Claudes Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á sunnudaginn.

„Brexit er slæmt og þetta var heimskuleg ákvörðun. Þeir einu sem geta snúið þessu við eru Bretar en ég er ekki draumóramaður, ég er raunsæismaður. Brexit mun eiga sér stað 29. mars, 2019,“ sagði Selmayr á ráðstefnu í Brussel. Þó lagalega mögulegt væri að snúa ákvörðuninni við væri það „hrokafullt“ af ESB að reyna að þrýsta á það.

Ummæli Selmayrs hafa fallið í grýttan farveg í Bretlandi og hefur hann verið sakaður, meðal annars af Nigel Farage þingmanni á Evrópuþinginu og fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, um að reyna að hafa áhrif á þinglega meðferð lagafrumvarps sem er ætlað að skera lagalega á tengsl Bretlands við Evrópusambandið.

Frumvarpið kemur til annarar umræðu í breska þinginu á fimmtudaginn og verða greidd atkvæði um það í næstu viku. Farage sagði Selmayr með ummælum sínum vera að tala til þingmanna í röðum Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins, sem væru líklegir til þess að leggjast gegn frumvarpinu, og reyna að koma málinu í uppnám.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert