Hermenn í hópi nýnasista

Breskir lögreglumenn að störfum.
Breskir lögreglumenn að störfum. AFP

Meðal fjögurra meintra meðlima breskrar nýnasistahreyfingar, sem handteknir voru í dag vegna gruns um hryðjuverkastarfsemi, eru hermenn. Þeir eru starfandi í breska hernum, að því er varnamálaráðuneytið segir.

„Við getum staðfest að starfandi hermenn hafa verið handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga fyrir að tengjast hægri öfgahópi,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Hreyfingin kallar sig National Action og var fyrsta rasistahreyfingin sem ríkisstjórn Bretlands setti á bannlista í desember á síðasta ári, hálfu ári eftir að þingkonan Jo Cox var myrt af hægri öfgamanni.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að fjórmenningarnir séu í haldi grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. 

Nöfn fólksins hafa ekki verið gefin upp en það er sagt á aldrinum 22-32 ára og vera frá Birmingham, Ipswich og Northampton á Englandi og Powys í Wales.

Lögreglan segir að handtakan hafi verið gerð í kjölfar rannsóknar en að öryggi almennings hafi ekki verið ógnað. 

Fólkið var handtekið í kjölfar húsleita sem gerðar voru á nokkrum stöðum. 

Cox var þingmaður Verkamannaflokksins. Hún var skotin og stungin til bana í júní í fyrra. Árásarmaðurinn heitir Thomas Mair og er yfirlýstur hægri öfgamaður. Hann hrópaði: „Bretland fyrst!“ áður en hann myrti hana. 

Nýnasistahreyfingin National Action fagnaði árás Mairs. Starfsemi hennar var bönnuð í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert