Segja N-Kóreu flytja langdræga eldflaug

Skip suður-kóreska hersins eru nú í heræfingum á Japanshafi.
Skip suður-kóreska hersins eru nú í heræfingum á Japanshafi. AFP

Yfirvöld í Suður-Kóreu telja ráðamenn í Norður-Kóreu eiga eftir ögra alþjóðasamfélaginu enn frekar með vopnakapphlaupi sínu, þrátt fyrir harða gagnrýni á að vetnissprengja hafi verið sprengd neðanjarðar í Norður-Kóreu á sunnudag, að því er Reuters greinir frá.

Forsetar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, þeir Donald Trump og Moon Jae-In, hafa komist að samkomulagi um að losa hömlur á stærð flugskeyta suður-kóreska hersins og telja ráðamenn í Suður-Kóreu það gera ríkinu kleift að bregðast betur við ögrun nágrannans í norðri.

Fjöldi flugskeyta var sendur á loft frá Suður-Kóreu í gær út á Japanshaf. Var það liður í umfangsmikilli heræfingu þar sem hermenn æfði m.a. árás á kjarnorkuvopnatilraunasvæði Norður-Kóreu.

Flaugin sögð flutt á nóttu til 

Suður-kóreska dagblaðið Asia Business Daily hefur eftir ónafngreindum heimildamanni að sést hafi til hermanna í Norður-Kóreu að flytja eldflaug sem virtust vera langdræg, í átt að vesturströnd landsins þar sem skotsvæði hersins er.

Ferðamaður stendur við glugga Namsan turnsins í Seúl og virðir …
Ferðamaður stendur við glugga Namsan turnsins í Seúl og virðir fyrir sér norður-kóresku borgina Pyongyang í fjarskanum. AFP

Hafist var handa við flutningana í gær og virðist sem flaugin sé aðeins flutt úr stað að næturlagi til að minna beri á flutningunum.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu varaði í gær við því að nágranninn í norðri væri að undirbúa eldflaugarskot, en að ekki lægi fyrir hvenær þeir ætluðu að senda flaugina á loft.

Norður-kóreski herinn gerði tilraunir með tvær langdraugar eldflaugar í júlí, sem fordæmdar voru af alþjóðasamfélaginu og viðskiptaþvinganir gegn ríkinu voru hertar enn frekar. Telja  sérfræðingar langdrægu flaugar þeirra geta náð til Bandaríkjanna.

Kim að „biðja um stríð“

Fundað var um málefni Norður-Kóreu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær og sagði Nikki Haley fastafulltrúi Bandaríkjanna þá að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, væri að „biðja um stríð“. Hvatti hún Öryggisráðið til að beita hörðustu viðskiptaþvingunum og refsiðagerðum sem það hefði kost á, til að draga úr vígamóði Kim, m.a. með því að loka á öll viðskipti við landið.

Samþykkti ráðið að Bandaríkin leggi fram fram tillögu um hertar þvinganir og að kosið verði um tillöguna er ráðið kemur saman í næstu viku.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með öðrum þjóðarleiðtogum í gær, m.a. forseta Suður-Kóreu, og Angelu Merkel Þýskalandskanslara vegna Norður-Kóreu. Sagði í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu að fundunum loknum að „allir möguleikar til að taka á ógninni sem stafi af Norður-Kóreu séu nú til skoðunar“.

Nú í morgun varaði Vladimír Pútín Rússlandsforseti við að ástandinu í Norður-Kóreumálinu kunni að fylgja mögulegar hörmungar fyrir heimsbyggðina alla finnist ekki diplómatísk lausn á deilunni, sem frekari refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir feli ekki í sér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert