Hafa rekið ótrúverðuga kosningabaráttu

Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgönguráðherra Noregs.
Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgönguráðherra Noregs. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Vinstriflokkarnir hafa rekið kosningabaráttu þar sem lögð er áhersla á það að allt sé hreinlega að fara norður og niður í Noregi. Ekki síst í efnahagsmálunum. Þeir voru eiginlega að vonast til þess að atvinnuleysi myndi aukast þar sem það hefði hentað þeim betur. En staðreyndin er að níu mánuði í röð hefur atvinnuleysi farið lækkandi og það passar bara ekki inn í áróðurinn frá vinstriflokkunum. Þetta er það sem ég held að sé að klikka hjá þeim.“

Frétt mbl.is: Fyrir hvað standa norsku flokkarnir?

Þetta segir Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgöngumálaráðherra Noregs, í samtali við mbl.is. Þingkosningar fara fram í Noregi 11. september og þá ræðst hvort núverandi minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins með stuðningi Frjálslynda flokksins og Kristilega þjóðarflokksins verði áfram við völd eða hvort vinstristjórn undir forystu Verkamannaflokksins taki við keflinu. Skoðanakannanir benda til þess að allt geti gerst.

Talið var lengi vel að Verkamannaflokkurinn myndi vinna auðveldan sigur í kosningunum en síðustu vikur hefur fylgi flokksins minnkað mjög á sama tíma og hægriflokkarnir hafa sótt í sig veðrið. Miklar vangaveltur hafa átt sér stað um það hvað hafi mistekist hjá flokknum og leiðtoga hans, Jonasi Gahr Støre. Reynir segist telja að það sem hafi ekki síst klikkað sé áðurnefndur málflutningur vinstriflokkanna sem samrýmist ekki upplifun kjósenda.

Hræðsluáróður eða skilur ekki stöðuna í samfélaginu

„Fólk kýs auðvitað stjórnmálaflokka út frá málefnum og hugsjónum en það vill líka stjórnmálamenn sem greina stöðu þjóðarinnar rétt. Ég hef spurt fólk að því hversu trúverðugt það sé þegar maður, sem vill verða forsætisráðherra, gengur um og talar um hvað allt sé slæmt á sama tíma og tölur á tölur ofan sýna að allt er á uppleið. Annað hvort er hann einfaldlega að reka hræðsluáróður eða skilur ekki hvað er að gerast í samfélagið.“

Reynir, sem starfar í umboði Framfaraflokksins, segir að hvorugur möguleikinn sé auðvitað góður fyrir leiðtoga Verkamannaflokksins. Sjálfur telji hann að um pólitískt útspil sé að ræða. Verkamannaflokkurinn sé hins vegar ekki þekktur fyrir það í Noregi að reka hræðsluáróður. Við vanda flokksins bætist að tveir róttækir flokkar á vinstrivængnum, Umhverfisflokkurinn og Rauði flokkurinn, eigi möguleika á að fá þingmenn kjörna.

„Það gæti þýtt að þessir flokkar gætu skipt sköpum um það hvort Verkamannaflokkurinn getur tryggt sér meirihluta í þinginu eða ekki,“ segir Reynir. Fyrir vikið gætu stuðningur þessara flokka þýtt að möguleg vinstristjórn yrði mun vinstrisinnaðri en ella. „Þannig að það stefnir í mjög spennandi kosningar. Það gekk ágætlega hjá okkur en síðan fór bara allt á fullt og nú er hugsanlegt að okkur verði treyst til að stýra landinu í fjögur ár í viðbót.“

Ljósmynd/Norden.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert