Verða að taka ábyrgð

AFP

Slóvakía og Ungverjaland verða að taka ábyrgð og taka á móti hluti af þeim flóttamönnum sem hafa komið til Evrópu. Þetta er niðurstaða æðsta dómsvalds Evrópusambandsins, Dómstóll Evrópusambandsins. Ríkin tvö höfðu reynt að fá ákvörðun ESB um úthlutun kvótaflóttamanna til aðildarríkja ESB hnekkt. 

Um er að ræða áætlun sem ESB samþykkti fyrir tveimur árum þegar flóttamannastraumurinn var sem mestur til álfunnar. Stjórnvöld í Ungverjalandi og Slóvakíu neituðu að taka þátt í móttöku flóttafólks og var málshöfðun þeirra studd af ríkjum ESB í austurhluta álfunnar.

Dómstóllinn segir í niðurstöðu sinni að leiðtogaráðið þurfi ekki að samþykkja einróma þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar. Um er að ræða ákvörðun leiðtogaráðsins að koma 120 þúsund flóttamönnum, meðal annars frá Sýrlandi, fyrir í öðrum ríkjum ESB en Grikklandi og Ítalíu þar sem flestir koma til á flóttanum til Evrópu. Um er að ræða hluta af samkomulagi um að flytja 160 þúsund hælisleitendur til annarra ríkja. 

Yfirstjórn ESB hefur haldið því að samkomulagið sé bindandi fyrir aðildarríkin, þar á meðal þau sem greiddu atkvæði gegn samkomulaginu; það er Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland og Rúmenía. Pólland studdi samkomulagið í upphafi en hefur síðan gagnrýnt það harkalega eftir að hægri stjórn tók við völdum í landinu.

Illa hefur gengið að framfylgja ákvörðun leiðtogaráðsins á þeim tveimur árum sem liðin eru. Tæplega 28 þúsund hafa flust búferlum samkvæmt samkomulaginu sem langt frá þeim 160 þúsund sem átti að koma fyrir annars staðar. Ungverjar áttu að veita 1.294 flóttamönnum hæli. Slóvakía hefur tekur á móti um 10 manns sem er mun færri en þeir 802 flóttamenn sem ríkinu var gert að taka á móti samkvæmt samkomulaginu.. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert