Vindhraði Irmu 83 m/sek

Fellibylurinn Irma er að nálgast land á eyjum í Karabíska hafinu og er vindhraðinn kominn í 83 metra á sekúndu. Irma er kröftugasti fellibylurinn sem hefur gengið á land á þessum slóðum í áratug. Yfirvöld vara við alvarlegum hörmulegum afleiðingum af völdum stormsins sem þegar hefur náð til Leeward-eyja og nálgast Púertó Ríkó og Dóminikanska lýðveldið óðfluga.

Öllum íbúum Key West í Flórída-ríki hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Ferðamenn þurfa að yfirgefa svæðið á næstu klukkutímum en íbúar á svæðinu í kvöld. Þá verður alþjóðlega flugvellinum lokað og öllum flugferðum aflýst.

Yfirmaður almannavarna í Monroe-sýslu í Flórída, Martin Senterfitt, segir að allir íbúar þurfi að yfirgefa eyjuna. Það sé einfaldlega ekki hægt að dvelja áfram þar þegar fellibylur sem er á kvarðanum fimm kemur þangað.

Á svæðum þar sem fellibylurinn nálgast hefur fólk verið flutt á brott. Flugvöllum hefur verið lokað á nokkrum eyjum í Karabíska hafinu og fólk hvatt til þess að forða sér í neyðarskýli. Matvöruverslanir standa tómar á mörgum stöðum þar sem fólk hefur birgt sig upp af helstu nauðsynjum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í Flórída, Púertó Ríko og Virgin-eyjum. 

Ríkisstjóri Púertó Ríkó, Ricardo Rossello, segir að Irma sé eitthvað sem ekki eigi sér forvera á eyjunni. 

Frétt BBC

Menn óttast það versta á Leeward-eyjum en Antigua, Barbuda, St. Kitts og Anguilla eru allar í stefnu fellibyljarins. „Leeward-eyjar verða lagðar í eyði,“ segir Phil Klotzbach, prófessor vi Colorado State-háskólann. Hann segist biðja til Guðs um að Irma breyti um stefnu og fari af leið áður en hún komi á eyjarnar. „Þessum stormi er alvara,“ segir hann í viðtali við Washington Post.

Þegar flugvellinum á Antigua var lokað í gær voru gestir sendir í burtu með þær ráðleggingar í farteskinu að finna skjól fyrir óveðrinu og beðið fyrir þeim. 

Bætt við klukkan 06:55

Irma er komin að landi á Barbuda-eyju og mældist vindhraðinn 83 metrar á sekúndu klukkan 6 í morgun að íslenskum tíma, klukkan 2 að næturlagi að staðartíma. Leið fellibyljarins liggur næst í átt að Bandarísku-Jómfrúareyjunum og Púertó Ríkó þar sem ölduhæðin er talin ná allt að sex metrum umfram hefðbundna ölduhæð á þessum slóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert