Eyjar hafa nánast þurrkast út

Um 95% af franska hluta karabísku eyjarinnar St Martin eyðilögðust þegar fellibylurinn Irma reið þar yfir. „Þetta eru gríðarlegar hamfarir. 95% eyjarinnar eru eyðilögð. Ég er í áfalli. Þetta er skelfilegt,“ segir Daniel Gibbs, fyrrverandi þingmaður Frakka og landsstjóri á eyjunni.

Saint-Martin.
Saint-Martin. AFP

Að minnsta kosti átta eru látnir á eyjunni en alls er vitað til þess að Irma hafi kostað níu lífið það sem af er. Gibbs segir að eyjarskeggjar þurfi á neyðaraðstoð að halda. „Ég er með veikt fólk sem þarf að flytja á brott,“ segir Gibbs í útvarpsviðtali. Hann segir að flytja þurfi fólk á brott því ekkert skýli er til fyrir það. 

Fellibylurinn Irma er einn kröftugasti fellibylurinn sem hefur farið yfir Atlantshafið og hefur hann skilið eftir sig slóð eyðileggingar á eyjum í Karíbahafinu undanfarinn sólarhring.

Saint-Martin.
Saint-Martin. AFP

Annick Girardin, sem er ráðherra svæða utan meginlands Frakklands, er á leið til Guadeloupe ásamt hjálparstarfsfólki og helstu nauðsynjum fyrir eyjaskeggja. 

„Það er of snemmt að tala um hversu mikið tjónið er en ég get sagt ykkur strax að tjónið er mikið og grimmilegt,“ segir Emmanuel Macron, forseti Frakklands. 

Eyjan St Martin er suður af eyjunni Anguilla og er henni skipt í tvennt, 53 ferkílómetrar eru undir franskri stjórn en 34 ferkílómetra svæði er undir stjórn Hollendinga. St Barts (Saint Barthelemy) sem liggur suðaustur af St Martin er einnig undir stjórn Frakka.

Saint-Barthelemy.
Saint-Barthelemy. AFP

„Barbuda er bókstaflega í rúst“

Eyðileggingin blasir víða við eftir Irmu á eyjum í Karíbahafinu. Eyjan Barbuda er vart byggileg eftir að Irma fór þar um og fátt eftir af mannvirkjum á St Martin. Talið er fullvíst að tala látinna eigi eftir að hækka. Á sama tíma hafa tveir stormar í viðbót náð styrk fellibyls.

„Barbuda er bókstaflega í rúst,“ segir forsætisráðherra Antigua og Barbuda, Gaston Browne, í samtali við ABS TV/Radio Antigua. „Öll húsin eru ónýt,“ segir Browne eftir að hafa heimsótt eyjuna en alls búa um 1.800 manns þar. „Þetta er algjör eyðilegging.“

Saint-Martin.
Saint-Martin. AFP

Irma er skilgreind sem fimmta stigs fellibylur sem er hæsta stig fellibylja. Hún er nú skammt fyrir utan Púertó Ríkó. Um helmingur eyjarskeggja eru án rafmagns, en alls eru íbúar Púertó Ríkó þrjár milljónir talsins. Talið er að rafmagn komist ekki þar á næstu daga.

Íbúar Dómíníkanska lýðveldisins og Haítí búa sig nú undir komu Irmu síðar í dag en vindhraði hennar er um 295 km á klukkustund eða 83 metrar á sekúndu.

Frá Saint-Barthelemy.
Frá Saint-Barthelemy. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni klukkan 3 í nótt eru auknar líkur á að fellibylurinn muni fara beint yfir Flórída um helgina og áhrifanna gæti þangað til í næstu viku.

Fellibylurinn ólmast nú í tæplega 140 km fjarlægð norð-norðvestur af San Juan og virðist sem hann sé að fjarlægjast Púertó Ríkó og Jómfrúareyjar. 

Frá Púertó Ríkó.
Frá Púertó Ríkó. AFP
Saint-Barthelemy.
Saint-Barthelemy. AFP
Frá Haítí.
Frá Haítí. AFP
Fólk að reyna að komast í burtu.
Fólk að reyna að komast í burtu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert