Hyggjast ákæra leiðtoga Katalóníu

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, reynir nú hvað hann getur til …
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, reynir nú hvað hann getur til að koma í veg fyrir að Katalónar gangi til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði svæðisins. AFP

Yfirvöld á Spáni hafa greint frá því að þau hyggjast ákæra leiðtoga Katalóníu vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu um aðskilnað og leggja hald á öll kosningagögn. Atkvæðagreiðslan fer að óbreyttu fram í næsta mánuði.

Saksóknarinn Jose Manuel Maza greindi fjölmiðlum frá því í dag að verið væri að leggja drög að ákærum til höfuðs leiðtoga katalónska þingsins og annarra embættismanna sem stóðu að ákvörðuninni um atkvæðagreiðsluna.

Maza, sem var skipaður í embætti af ríkisstjórn forsætisráðherrans Mariano Rajoy, sagði einnig að yfirvöldum yrði skipað að leggja hald á öll gögn er tengdust atkvæðagreiðslunni.

Rannsókn stendur yfir á skipulagningu atkvæðagreiðslunnar en ákærðu munu mögulega þurfa að svara fyrir „óhlýðni“, „blekkingar“ og „misnotkun opinbers fjár“.

Sjálfur hefur Rajoy sakað leiðtoga Katalóna um „óviðunandi óhlýðni“ þegar þeir samþykktu atkvæðagreiðsluna. Þá hafa spænsk stjórnvöld farið fram á að stjórnarskrárdómstóll landsins ógildi lög um atkvæðagreiðsluna.

Talsmaður katalónskra yfirvalda sagði atkvæðagreiðsluna myndu fara fram, óháð „umsátri“ stjórnvalda í Madríd. „Hvort sem það snjóar eða blæs þá höldum við ótrauð áfram, af því að við erum skuldbundin borgurum Katalóníu,“ sagði Jordi Turull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert